3. desember - Núpsstaður
Núpsstaður er austasti bær í Skaftárhreppi. Innan marka jarðarinnar eru þjóðkunnar náttúruperlur á borð við Lómagnúp, Grænalón og Núpsstaðarskóga. Núpsstaður var öldum saman einn afskekktasti bær á landinu en komst í þjóðbraut með opnun vegarins um Skeiðarársand árið 1974. Frá Núpsstað var veitt fylgd yfir jökulvötnin miklu á Skeiðarársandi á tímum hestaferða.
Núpsstaður er nú í eyði en samfelld búseta var á staðnum fram til ársins 2010 þegar síðasti ábúandinn lést. Bærinn hefur verið í eigu sömu ættar frá því um 1730.
Á Núpsstað er ein heillegasta þyrping bæjarhúsa frá seinni hluta 19. aldar sem varðveist hefur hér á landi, alls fimmtán uppistandandi útihús úr torfi og grjóti auk bænhúss, íbúðarhúss úr timbri og rústa af fjórum útihúsum. Bæjarhúsin ásamt tröðum, hlöðnum túngörðum og öðrum búsetuminjum fyrri tíðar mynda einstæða og lítt snortna minjaheild.
Á síðasta hluta 19. aldar var íbúðarhúsið á Núpsstað reisulegur torfbær af sunnlenskri gerð með burstum fram að hlaði. Austustu og elstu húsin: skáli, búr og Litlahús, sem sneru langhlið að hlaðinu voru rifin um 1890. Árið 1905 viku stofa, gestakamers, bæjardyr og búr fyrir nýju timburhúsi með tveimur burstum fram á hlað. Árið 1929 var timburhúsið stækkað, burstirnar teknar af og húsið hækkað. Nýtt ris var sett á húsið með mæni samsíða hlaði og þvert á önnur bæjarhús. Húsið stendur enn og er núverandi íbúðarhús. Það hefur varðveist að mestu óbreytt að ytra borði ef gluggar eru frátaldir.
Heimildir eru um kirkju á Núpsstað allt frá árinu 1200. Við bæinn stendur torfhlaðið bænhús af fornri gerð. Bænhúsið er minnst þeirra torfkirkna sem varðveist hafa hér á landi og hefur einstakt gildi frá sjónarhóli byggingarlistar. Það var fyrsta torfhúsið sem sett var á fornleifaskrá árið 1931. Deildar meiningar eru um aldur bænhússins, hvort það sé frá 17. öld eða miðri 19. öld.
Núpsstaður hefur sérstöðu meðal íslenskra torfbæjarþyrpinga vegna fjölda og upprunagildis þeirra húsa sem varðveist hafa. Þá er Núpsstaður eini staðurinn á landinu þar sem bæði bæjarhús og kirkja úr torfi standa enn á sínum upprunastað.
Gildi staðarins felst ekki síst í samspili menningarminja og stórbrotins landslags, andstæðum lágreistra torfbygginga og hrikalegra kletta sem gnæfa yfir bænum. Bæjartorfan á Núpsstað er einn þeirra staða sem efst eru á lista yfir torfhús á hinni íslensku yfirlitsskrá í tengslum við heimsminjaskrá UNESCO.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Gísli Gestsson. 1961. „Gamla bænahúsið á Núpsstað“. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1961, bls. 61-84.
Gísli Gestsson. 1970. „Gömul hús á Núpsstað“. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1969, bls. 15-44.
Guðmundur L. Hafsteinsson. 2014. „Bænhúsið á Núpsstað“. Kirkjur Íslands 23, bls. 45-64. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag o.fl.
Guðmundur L. Hafsteinsson. 2006. Núpsstaður – Byggingalýsingar. Reykjavík: Þjóðminjasafnið (ljósrit í vörslu Minjastofnunar).
Hjörleifur Stefánsson. 2013. Af jörðu: íslensk torfhús. Reykjavík: Crymogea o.fl.
Hörður Ágústsson. 1998. Íslensk byggingararfleifð I: Ágrip af húsagerðarsögu 1750- 1940. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins.