4. desember - Surtshellir
Í Hallmundarhrauni, undir hlíðum Eiríksjökuls, í landi Kalmanstungu í Borgarfjarðarhéraði er að finna Surtshelli, einn stærsta og þekktasta helli landsins. Hellirinn hefur verið sögusvið goðsagna og útilegumannasagna svo lengi sem heimildir geta. Er hann talinn vera sögusvið Hallmundarkviðu í Landnámu sem fjallar um átök milli Þórs og Surts eldjötuns. Nafn hellisins er einmitt talið dregið af heiti Surts þótt því hafi einnig verið velt upp hvort um sé að ræða tilvísun í sortann sem er inni í hellinum. Í Hellismanna sögu sem gerist í uppsveitum Borgarfjarðar er hellirinn sögusvið sagnar umátján skólapilta frá Hólum sem áttu að hafa lagst út í Surtshelli. Hellirinn kemur einnig við sögu í Sturlungu þar sem segir frá því þegar Sturla Sighvatsson fer með Órækju Snorrason í hellinn Surt til að pynta hann og limlesta. Lýsing hellisins í Sturlungu bendir til þess að hann hafi verið vel þekktur á þeim tíma er sagan er rituð, á 12. og 13. öld.
Surtshellir hefur lengi haft mikið aðdráttarafl fyrir landkönnuði og ævintýraferðamenn sem hafa kannað hellinn og minjarnar. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um svæðið árið 1750 var þeim eindregið ráðið frá að fara inn í hellinn þar sem draugar og andar ættu þar bólfestu. Ekki fóru þeir eftir tilmælunum en ítarlega lýsingu og fyrsta uppdráttinn af hellinum er að finna í Ferðabók Eggerts og Bjarna, en þeir félagar könnuðu hellinn og mældu hann upp árið 1753. Matthías Þórðarson taldi Surtshelli merkastan allra hella á Íslandi og friðlýsti hann menningarminjarnar í hellinum árið 1930.
Um 200 m fyrir innan aðalop Surtshellis skerast tveir afhellar inn í bergið hvor sínu megin. Um 30 m inn í þeim syðri er að finna friðlýstu minjarnar sem samanstanda af grjóthlöðnu mannvirki og beinahrúgu. Mannvirkið er um 7 m langt og 3,5 m breitt í miðju en mjókkar til endanna og er um 1,5 m við gaflana. Syðri langveggurinn er bogadreginn. Veggirnir eru um 0,8-1 m á hæð og virðast ekki hafa verið hærri upprunalega eða haft þak. Tveir inngangar eru á mannvirkinu: einn frá aðalhellinum á miðri hlið nyrðri langveggjar og hinn á syðri, innri langvegg. Við austurgaflinn er innbyggt hólf í veggnum og stór flöt hraunhella er yfir hólfinu. Annað svipað hólf er að finna nálægt vesturgafli. Á árunum 2001 og 2013 fóru fram rannsóknir á fornminjum í Surtshelli og gólflag í mannvirkinu var fjarlægt til greiningar. Fundust ýmsir gripir í gólfinu svo sem glerperlur, kross og met úr blýi.
Utan við tóftina að framanverðu er allstór beinahrúga; 3,7 m löng og 2 m á breidd. Árið 2001 var grafinn könnunarskurður í hana og sýni tekið til greiningar. Beinahrúgan reyndist vera aðeins 3-7 sm að þykkt en ummerki á veggnum benda til þess að hún hafi upprunalega verið 50 sm þykk. Í ferðabók Eggerts og Bjarna frá miðri 18. öld kemur fram að þeir hafi eytt efsta hluta beinahrúgunnar, án þess að útskýra það nánar. Í seinni tíð tíðkaðist meðal ferðamanna að taka með sér bein sem minjagrip um heimsóknina í hellinn en slíkt er nú stranglega bannað. Á 20. öld afmarkaði Kristleifur Þorsteinsson bóndi á Húsafelli stíg meðfram beinahrúgunni með einfaldri steinaröð til að hlífa henni frá ágangi ferðamanna.
Beinasýnin sem tekin voru við rannsóknina árið 2001 hafa verið greind til tegunda: nautgripa, svína, hesta, kinda og geita, en markverð var fjarvera leifa af villbráð, skeldýrum og fiski. Beinin virðast hafa verið brotin viljandi í smátt. Aldursgreiningar á beinum sýndu að þau væru frá fyrstu áratugum landnáms, rétt eftir að Hallmundarhraun rann, um miðja 10. öld.
Surtshellir er í töluverðri fjarlægð frá byggð. Eingöngu er hægt að fara inn í hellinn um tvö op, annars vegar aðalmunna Surtshellis og hins vegar við íshelli. Ekki er fært inn né út um önnur op í hellinn án þess að hafa klifur- og sigbúnað. Gólfið í hellinum er grýtt og seinfarið sökum hruns úr lofti. Eigi að fara inn í hellinn þarf að hafa góðan útbúnað svo sem góða skó, vasaljós og hlý föt. Þá er æskilegt að vera með hjálm. Ekki er ráðlagt að vera einn á ferð og mikilvægt er að láta vita af ferðum sínum áður en lagt er af stað inn í hellinn.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Eggert Ólafsson. 1981. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Örn og Örlygur: Reykjavík.
Guðni Jónsson. 1953. Landssaga og landnám. Íslendingasögur I. bindi. Prentverk Odds Björnssonar H.F.: Akureyri.
Guðmundur Ólafsson, Kevin P. Smith og Agnes Stefánsdóttir. 2004. Rannsókn á minjum í Surtshelli. Rannsóknarskýrslur Þjóðminjasafns 2001, VIII. Þjóðminjasafn Íslands: Reykjavík.
Kevin P. Smith, Guðmundur Ólafsson & Thomas H. McGovern. 2010. „Surtshellir: A fortified Outlaw Cave in West Iceland“. The Viking Age: Ireland and the West: Proceedings of the Fifteenth Viking Congress, Cork, 2005. Four Courts Press: Dublin, bls. 283-297.
Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason, Kristján Eldjárn, & Magnús Jónsson. 1946. Sturlunga saga. Sturlunguútgáfan: Reykjavík.
Ólafur Briem. 1959. Útilegumenn og auðar tóttir. Bókaútgáfa menningarsjóðs: Reykjavík.