5. desember - Klyppstaðarkirkja
Á kirkjustaðnum Klyppstað í Loðmundarfirði, afskekktri eyðibyggð á Austurlandi, stendur lítil timburkirkja, reist árið 1891. Klyppstaðarkirkja er einföld alþýðukirkja af yngri gerð turnlausra kirkna sem risu víða um land á tveimur seinustu áratugum 19. aldar, eftir að nýklassísk áhrif urðu áberandi í íslenskri timburhúsagerð. Hún sver sig í ætt við þrjár austfirskar kirkjur sömu gerðar: Eiða-, Hjaltastaða- og Þingmúlakirkjur, sem allar risu fáum árum á undan. Sérstaklega er skyldleikinn við Þingmúlakirkju augljós. Hlutföll, form, gluggagerð og fleiri útlitsatriði eru áþekk. Klyppstaðarkirkja er aðeins minni og ekki eins mikið lagt í innansmíð hennar. Líklegt er að Þingmúlakirkja hafi verið fyrirmynd við kirkjusmíðina, þó þess sé hvergi getið í heimildum. Klyppstaðarkirkja var í upphafi með sams konar klæðningu og Þingmúlakirkja, láréttum borðum (plægðri vatnsklæðningu) sem máluð voru í ljósgráum lit. Tvennt var þó ólíkt. Bárujárn var á þaki Klyppstaðarkirkju frá fyrstu tíð og veggklæðing hennar inni er af eldri gerð, endurnýtt úr fyrri kirkju.
Klyppstaðarkirkja hefur haldið öllum einkennum sínum og er
nánast í sömu mynd og þegar hún var reist, ef undanskilin er bárujárnklæðing á
veggjum. Henni hefur verið vel við haldið í seinni tíð og viðgerðir hafa verið
gerðar af virðingu fyrir upphaflegri gerð. Kirkjan er í umsjón prófasts
Austurlandsprófastsdæmis sem hefur falið Þórhalli Pálssyni arkitekt á Eiðum að
annast viðhald og endurbætur. Auk Þórhalls hefur Björn Björgvinsson
húsasmíðameistari á Breiðdalsvík unnið að viðgerðum. Viðhald kirkjunnar er merkilegt
framtak í ljósi þess að byggð lagðist af í Loðmundarfirði á áttunda áratug 20.
aldar. Verkið hefur að mestu verið fjármagnað með styrkjum úr húsafriðunarsjóði
því engin eru sóknargjöldin. Messað er í kirkjunni á hverju sumri.
Í næsta nágrenni Klyppstaðar er skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Landvörður þar varðveitir lykil að kirkjunni og er hún til sýnis gestum sem að garði ber. Það segir sitt um einstakt menningargildi Klyppstaðarkirkju og annarra kirkna í eyðibyggðum að þeir sem þangað eiga ættir að rekja skuli reiðubúnir að kosta tíma og fé í viðhald og umhirðu svo byggingarnar megi standa áfram sem áþreifanlegur vitnisburður um lífsbaráttu og trúarlíf genginna kynslóða. Fyrir ferðamenn á eyðislóðum eru byggingarnar ekki síður mikilvægar sem áþreifanleg tenging við menningu og sögu horfinnar byggðar sem fátt annað af mannvirkjum er til vitnis um.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Höf. Pétur H. Ármannsson