6. desember - Þórarinsstaðir

Friðlýstar minjar á Hrunamannaafrétti

IMG_6564_Thorarinsstadir_Baejarrust_NV_1670323887359Rústir eyðibýlisins Þórarinsstaða eru staðsettar við Stangará á Hrunamannaafrétti, vestast í svonefndri Hnausheiði. Getur þar að líta leifar bæjarhúsa, auk þriggja fjárhúsa, sem samanlagt rúmuðu um 200 fjár, og smiðjuleifar.

Er svæðið illa farið af uppblæstri og má segja að túnstæði Þórarinsstaða sé örfoka melur, en umhverfis eru þykkar óblásnar torfur með rofabörðum. Eru minjarnar því nú illgreinilegar.


6des_1670323884440

Elstu lýsingar á Þórarinsstaðarústum eru frá árinu 1895, en Brynjúlfur Jónsson og Þorsteinn Erlingsson komu báðir á staðinn það ár og gerði sá síðarnefndi jafnframt lauslegan uppdrátt af rústunum. Daniel Bruun kannaði svo staðinn árið 1897 og stóð fyrri minniháttar uppgreftri á hluta bæjarhúsanna. Sumarið 1945 stóð Kristján Eldjárn svo fyrir ítarlegri rannsókn á staðnum og gróf þá upp leifar bæjarhúsanna, fjárhúsanna og smiðjunnar. Birti hann yfirgripsmikla skýrslu um rannsóknina í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-1948. Þegar rannsóknin fór fram virðist uppblástur þegar hafa verið farinn að herja nokkuð á minjasvæðið, en ástand þess var þó öllu skárra en nú er og var hluti rústanna undir þykkri jarðvegstorfu. Voru veggir allháir og gjarnan „úr torfi eða grjóti eða hvort tveggja“.

Bæjarrústin, sem snýr nokkur veginn norður-suður, skiptist í sex meginrými. Fyrir miðju var skáli, ca. 35 m2 að innanmáli. Aðalinngangur virðist hafa verið norðarlega á vesturvegg og hellulagt gólf inn eftir honum frá stétt fyrir utan skálann, en bakdyr á móts við aðalinnganginn á austurvegg. Leifar eldstæðis fundust í miðjum skálanum og ummerki um set meðfram langveggjum. Rými sem túlkað var sem stofa tengdist skálanum að sunnanverðu um um 4,5 m löng göng en miðja vegu á milli skálans og stofunnar voru svo dyr til austurs inn í rými sem túlkað hefur var sem búr. Á móts við búrið voru svo útidyr á vesturvegg ganganna. Í stofunni, sem var um 18 m2 að stærð, gat að líta leifar bekkja úr uppreistum grjóthellum og jarðvegi meðfram langveggjum, en við suðurenda eystri bekkjarins voru svo leifar grjóthlaðinna hlóða. Í suðvesturhorni stofunnar var lítið útskot í langvegginn, fóðrað með hellugrjóti, og fyrir framan það 34 kljásteinar. Ekki er ljóst hvert hlutverk útskotsins hefur verið en kljásteinarnir benda þó til þess að þarna hafi staðið vefstaður. 

ThorarinssÍ búrinu sem var um 13 mað innanmáli, fundust ummerki um tvo stóra niðurgrafna sái og einn minni, far eftir tunnu, og grjóthlaðna bekki meðfram norður- og austurvegg. Frá norðurenda skálans var innan gegnt í fjósið sem var um 26 m2 að stærð að innanmáli. Gat þar að líta leifar 14 bása úr hellugrjóti og voru níu við vesturvegginn en fimm við austurvegginn, flór úr hellugrjóti var á milli básaraðanna og lá sú hellulögn frá tengidyrum við skálann til norðurs eftir fjósinu endilöngu. Dyr voru á norðurenda fjóssinn út í stutt göng eða rangala sem lá að dyrum sem opnuðust til vesturs. Voru þessi göng hellulögð sem og dyrnar. Innangengt var úr fjósinu í hlöðu sem var sambyggð þvert á það norðarlega að austanverðu. Norðan við hlöðuna var svo lítið rými með óskilgreint hlutverk sem Kristján kallaði kofa og tengdist fjósrangalanum. 

IMG_6560_Thorarinsstadir_Bur_A

Leifar af búrinu

Gólflög sem fundust á Þórarinsstöðum voru fremur þunn og taldi Kristján því að búseta hafi varðað þar stutt. Þóttu honum bæjarhúsin líkjast bæjum af „Þjórsárdalsgerðinni“, svokölluðu, sem grafnir höfðu verið í Þjórsárdal, að öllu leyti en því að í Þjórsárdal virðast fjós sjaldnast hafa verið sambyggð íveruhúsum. Honum þótti því líklegt að Þórarinsstaðir hafi verið frá svipuðum tíma og Þjórsárdalsbæirnir. Voru rústirnar auk þess fylltar sama ljósa Hekluvikrinum og aðrar bæjarrústir sem fundist hafa í Þjórsárdal. Taldi Kristján því að Þórarinsstaðir hafi farið í eyði í sama Heklugosi og eyddi byggð í Þjórsárdal, eða um 1300, en seinna átti þó eftir að koma í ljós að vikurinn var úr gosi sem tímasett hefur verið til 1104. Bærinn er því talinn töluvert eldri og búseta lögst af fyrir eða um 1104.

Thorarinsstadir

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá


Heimildir

Kristján Eldjárn. 1949. Eyðibyggð á Hrunamannaafrétti. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, bls. 1-43. Ísafoldarprentsmiðja: Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson. 1968. Beinagrindur og bókarspennsli. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1967-69, bls. 50-58. Kristján Eldjárn (ritstj.). Ísafoldarprentsmiðja: Reykjavík.