7. desember - Umferðarmiðstöð BSÍ

...við Vatnsmýraveg

365-Reykjavik-Umferdarmidstodin-3

Umferðarmiðstöðin árið 1988, ljósmynd: Kristján A. Einarsson. Mynd tekin í suðausturátt að aðalinngangi hússins. 

Umferðarmiðstöð BSÍ er hluti af svokölluðum yngri minjum, í flokki samgönguminja. Byggingin hefur ekki náð þeim aldri að vera friðuð samkvæmt lögum um menningarminjar, en hún er engu að síður mikilvægur hluti af menningar- og byggingarsögu þjóðarinnar. Á síðustu árum hefur orðið mikil vitundarvakning um verndun og endurnýtingu bygginga meðal annars út frá umhverfissjónarmiðum. Stefnan í löndunum í kringum okkur er farin að fjalla í auknum mæli um endurbætur og umbreytingu bygginga og vernda þannig sögulega vídd og fjölbreytni í borgarmynd framtíðar.

7des_1670331735928

Umferðarmiðstöð BSÍ var teiknuð af Gunnari Hanssyni arkitekt árið 1960 og er hún að stofni til stílhrein og látlaus bygging og gott dæmi um móderníska byggingarlist 6. áratugarins. Upphaflega var gert ráð fyrir viðbótarálmum til beggja enda og var hún þannig hugsuð sem hluti af stærri húsasamstæðu. Umferðarmiðstöð BSÍ hefur mikið menningarsögulegt gildi sem opinber bygging sem lengi hefur þjónað hlutverki einnar helstu samgöngumiðstöðvar Reykjavíkur. Þrátt fyrir að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á ytra byrði hússins er útlit þess enn í miklu samræmi við upprunalegar teikningar frá árinu 1960. Það sem einna helst truflar þá ásýnd hússins í dag er mikið magn auglýsingaskilta og hefur byggingin látið töluvert á sjá vegna ónógs viðhalds. Helstu breytingar hafa verið á innra skipulagi en burðarkerfi hússins einfalt í anda módernisma og því auðvelt að breyta skipulaginu án þess að raska eiginleikum rýmisins.

T-GE-926-0-0a

 

Umferðarmiðstöðin árið 1970, ljósmynd: Gunnar Einarsson. Biðsalurinn, bjart og opið rými með göngubrú á efri hæð þar sem var aðkoma að skrifstofum og fundarsal. Hér sést vel hið einfalda burðarkerfi hússins.

T-GE-926-4-4a

Umferðarmiðstöðin árið 1970, ljósmynd: Gunnar Einarsson. Suðurhlið BSÍ við rútubílastæðin. 

IMG_1092

Suðurhlið BSÍ eins og hún lítur út í dag. 

Umferðarmiðstöð BSÍ þótti mjög glæsileg bygging á upphafsárum sínum og þó að viðbótarálmurnar hafi aldrei verið reistar þá stendur húsið sem gróið kennileiti í Vatnsmýrinni. Enn er mikið pláss á lóðinni og því möguleikar fyrir hendi að endurnýja og stækka bygginguna eins og hugmyndir voru um í upphafi. Umferðarmiðstöð BSÍ myndi þá lifa áfram sem vitnisburður um bjartsýni og stórhug borgaryfirvalda þess tíma, í nýju hverfi sem mögulega mun rísa þar í framtíðinni.

1960-10-27_4

Teikning sem sýnir norður- og suðurhlið hússins, undirrituð af Gunnari Hanssyni arkitekt árið 1960.

 

 

Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá

 

Heimildir

Bréf Minjastofnunar Íslands dagsett 14. janúar 2014. Efni: Umferðarmiðstöð BSÍ við Vatnsmýrarveg, mat á varðveislugildi.

Bréf Árbæjarsafns dagsett 29. september 1999. Efni: Varðandi Umferðarmiðstöðina v. Vatnsmýrarveg.

Reykjavík 1. tölublað 10. janúar 2015. Blaðagrein, Atli Þór Fanndal.

Morgunblaðið 17. október 2019, blaðsíða 16. Blaðagrein Sigtryggur Sigtryggson. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/10/17/tharf_umferdarmidstodin_ad_vikja/

Húsaskráning Vatnsmýrarvegur 10, unnið af Minjasafni Reykjavíkur, dagsett 17. desember 2013