8. desember - Kúvíkur
Kúvíkur standa við Reykjarfjörð í Árneshreppi á Ströndum. Í gamalli
munnmælasögu segir að áður fyrr hafi gömul einsetukona búið á Sætrunum, sem eru
beint á móti Kúvíkum til norðurs, og hafi hún átt eina kú. Segir sagan að eitt
sinn hafi fallið snjóflóð á kofa hennar með þeim afleiðingum að allt sópaðist
út í sjó, þar með talið konan og kýrin. Kúna á að hafa rekið yfir fjörðinn og
komið að landi í Kúvíkum og mun nafnið þaðan vera komið.
Sumarið 2003 fór fram fornleifaskráning í Árneshreppi
á Ströndum á vegum Fornleifastofnunar Íslands ses. Gerð var heimildakönnun fyrir
hreppinn auk þess sem minjar voru skráðar á vettvangi. Ein þeirra jarða sem
skráðar voru er Kúvíkur en bærinn var þá skráður undir jörðinni Kambi. Sumarið
2020 fóru starfsmenn Minjastofnunar Íslands aftur á vettvang í þeim tilgangi að
mæla upp minjarnar á Kúvíkum með betri tækni en í boði var árið 2003 sem og að
mynda þær úr lofti og á jörðu niðri. Hvatinn að þessari endurskoðun á skráningu
minjanna voru hugmyndir heimamanna um varðveislu, kynningu og hugsanlega
nýtingu minjanna í þágu ferðaþjónustu á svæðinu.
Gengið var kerfisbundið á þegar skráðar minjar en einnig var eitthvað um
nýskráningu áður óþekktra minja. Skráðar voru minjar í heimatúni Kúvíka sem og
á svæðum fjarri heimatúninu, en verður umfjöllunin hér bundin við minjar í
heimatúni.
Túnstæðið í Kúvíkum er í grösugum hvammi sem hallar
niður að fjöru, mót norðri. Að austan og suðaustan markast hvammurinn af fremur
háu klettabelti en að vestanverðu rennur Búðará. Á Kúvíkum er að finna fjöldann
allan af minjum sem flestar virðast vera frá síðasta skeiði búsetu á staðnum og
sjást á túnakorti sem gert var árið 1917.
Meðal minja í heimatúni Kúvíka má nefna fjölda
landbúnaðarminja auk minja frá tímum verslunar sem rekin var í Kúvíkum a.m.k
frá árinu 1602, þegar einokun komst á í landinu, og fram yfir aldamótin 1900
þegar verslun fluttist í Djúpavík. Bæjarlækur Kúvíka liggur um miðbik
heimatúnsins frá suðvestri til norðausturs og skiptir því í tvo nokkurn veginn
jafna hluta, austan og vestan lækjar.
Túngarður Kúvíka er að mestu hlaðinn úr grjóti, fyrir
utan 30-40 m kafla meðfram norðurjaðri túnsins. Víða eru rof í túngarðinum, til
að mynda þar sem bæjarlækurinn rennur í gegnum hann, en einnig hafa víða verið
hlið á honum. Virðist aðallhliðið á túngarðinum hafa verið þar sem akvegur
kemur að Kúvíkum, en um það hefur legið fjölfarnasta leiðin heim að bæ. Traðir
liggja til norðausturs frá áðurnefndu aðalhliði og eru þær vel greinanlegar á
um 150 m löngum kafla að þyrpingu verslunarminjanna sem eru nyrst fyrir miðju
túni.
Í túninu eru minjar áveitumannvirkja og beðaslétta áberandi, bæði austan og vestan lækjar. Má þar helst nefna merki um umfangsmikla áveituskurði, líkt og sjá má á korti hér að neðan, sem stýrt hafa vatnsflæði til og frá jarðræktarsvæðunum. Beðaslétturnar eru mjög reglulegar og liggja flestar langsum í norður-suður. Hver slétta er um 2 m á breidd og grunnar rásir sjást á milli beða. Til norðurs, niður við sjávarsíðuna, má finna minjar þeirra húsa sem áður stóðu á Kúvíkum í tengslum við verslun á staðnum. Má þar m.a. nefna leifar af íbúðarhúsi Jakobs Thorarensen, rúst aðalverslunarhússins í Kúvíkum sem og rústir annarra húsa, svo sem hænsnakofa, útihúsa, bræðsluhúss og fjárhúss. Auk þess mun aðalbryggja verslunarstaðarins hafa staðið fram af verslunarhúsinu, en hennar sjást nú engin merki.
Til austurs í túni Kúvíka, á svæði sem nefnt er Á hlaðinu,
má enn fremur finna minjar frá þeirri tíð sem verslun var stunduð í Kúvíkum. Má
þar helst nefna grunn undan íbúðarhúsi Carls Jensens sem flutt var af grunni
sínum og stendur nú í Kaldbaksvík. Grunnurinn er steinsteyptur að mestu og
norðan til í honum vottar fyrir leifum af grjóthlöðnum kjallara. Tröppur liggja
enn upp að dyrum á miðri norðurhlið hússins. Austan við íbúðarhúsið mun hafa
verið lítil verslun en hennar sjást nú engin merki. Beint suður af húsgrunninum
er lítil tóft af hænsnakofa og meðfram henni liggur lítið garðlag sem myndar
næstum S og má segja að þetta garðlag aðgreini fyrrnefnd svæði, þ.e. heimatún
Kúvíka og Á hlaðinu. Á þessu svæði er svo að finna frekari minjar, svo
sem rúst fjárhúss, útihúss og óþekktrar tóftar.
Með sanni má segja að minjasvæði Kúvíka sé einstakt vegna þeirra
heildstæðu minjaflokka sem þar er að finna, þ.e. landbúnaðarminja annars vegar
og minjar um verslun á staðnum hins vegar.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Birna Lárusdóttir, Guðrún Alda Gísladóttir og Uggi Ævarsson. 2005. Fornleifaskráning í Árneshreppi II: Fornleifar fráKolbeinsvík til Kjörvogs og frá Seljanesi til Skjaldarbjarnarvíkur. Fornleifastofnun Íslands: Reykjavík.
Guðmundur Stefán Sigurðarson, Margrét Valmundsdóttir og Oddgeir Isaksen. 2022. Kúvíkur í Árneshreppi á Ströndum: Endurskoðun fornleifaskráningar. Minjastofnun Íslands: Reykjavík.