9. desember - Grænavatn
Bæjarstæði Grænavatns í Mývatnssveit er einstakt. Þar stendur reisulegur og fallegur gamall frambær og umhverfis hann eru útihús á ólíkum aldri, auk gamalla tófta sem saman mynda heildrænt menningarlandslag.
Frambærinn er eitt stærsta timburhús síns tíma, byggt árið 1913. Páll Kristjánsson smiður (1876-1968) sem verið hafði yfirsmiður Húsavíkurkirkju teiknaði húsið. Það kom í stað framhúsa gamla torfbæjarins en aðrir hlutar hans voru notaðir áfram. Frambærinn er hæð og yfir henni portbyggt ris með tveimur kvistum. Grunnflötur jarðhæðar er um 160 m2. Tvær fjölskyldur bjuggu í bænum og var honum skipt í tvennt eftir miðju. Beggja vegna bæjardyranna voru stofur sem tilheyrðu hvorri fjölskyldu. Þó var hægt að opna á milli stofanna og var það oft gert þegar samkomur voru haldnar á Grænavatni. Undir húsinu eru tveir aðskildir kjallarar. Árið 1947 var fjórbýli á jörðinni og bjuggu þá allar fjölskyldurnar fjórar í torfbænum og framhúsinu til ársins 1952 þegar hafin var bygging nýrra íbúðarhúsa. Síðustu íbúarnir fluttu ekki úr bænum fyrr en 1969. Torfbærinn var þá felldur niður en rústir hans má nú sjá að baki frambæjarins. Traðir liggja upp að Grænavatnsbænum að sunnan og má sjá þær á gömlu myndinni sem fylgir hér.
Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri. Ljósmyndari óþekktur.
Norðan við bæinn er stórmerkileg hlaða sem enn stendur undir þaki og er talin reist um miðja 19. öld. Hún er aflöng með lítið eitt sveigðum langveggjum og snýr göflum í norður og suður. Veggirnir eru hlaðnir úr hraungrýti og eru hornin bogalaga. Þakið er klætt bárujárni en veggir, dyraumbúnaður, hurðir og lamir eru upprunaleg.
Bakkhús eru fjárhús sem standa enn á bakka Grænavatns. Um er að ræða hefðbundin torffjárhús, þrjú talsins með hlöðu. Veggirnir eru hlaðnir úr hraungrýti en bárujárn er á þakinu, fergt með grjóti og ýmsu lauslegu. Húsin eru farin að halla töluvert og spurning hvað þau munu standa lengi. Fleiri greinilegar útihúsatóftir eru víða um heimatúnið, má þar nefna tóftir Nýhúsa sem eru um 20 m austan við bakka Grænavatns. Einnig var hesthúsatóft 15-20 m norðaustan við gamla bæinn. Að lokum eru tvenn fjárhús, nefnd Grundarhús, sem hafa verið löguð og endurbætt að nokkru leyti úr bárujárni og steypu en fremri hlutinn er ennþá úr torfi og grjóti.
Húsafriðunarsjóður hefur styrkt endurbyggingu frambæjarins að Grænavatni síðustu ár og verður því verki framhaldið næstu ár. Spennandi verður að fylgjast með framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
Smelltu hér til að skoða svæðið í minjavefsjá
Heimildir
Hjörleifur Stefánsson. 2013. Af jörðu. Íslensk torfhús. Crymogea: Reykjavík.
Elín Ósk Hreiðarsdóttir & Orri Vésteinsson. 1999. Fornleifaskráning íSkútustaðahreppi III: Fornleifar við sunnanvert Mývatn, milli Haganess og Garðs. FS086-96013. Fornleifastofnun Íslands ses.: Reykjavík.