Hvað er aldursfriðun?

Allar menningarminjar 100 ára og eldri eru friðaðar samkvæmt aldursákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012. Að auki teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 til forngripa og eru því friðuð sökum aldurs. Friðun felur í sér sjálfkrafa verndun fornminja (forngripa og fornleifa), húsa og mannvirkja á grundvelli aldurs þeirra. Friðuðum menningarminjum má enginn, hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Umhverfis aldursfriðaðar fornleifar er 15 m friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðaðar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.