Hvað er friðlýsing?

Friðlýsing er mesta mögulega verndun menningarminja á Íslandi og er talað um að menningarminjar séu friðlýstar sem þjóðminjar. Friðlýsingu er þinglýst sem kvöð á fasteign og er það gert til að tryggja sem best varðveislu menningarminjanna. Ráðherra ákveður friðlýsingu eða afnám friðlýsingar að fenginni tillögu frá Minjastofnun Íslands. Upphaflega hugmyndin getur komið frá ráðherra, Minjastofnun Íslands, sveitarstjórnum, hópum fólks eða einstaklingum.

Hægt er að friðlýsa fornleifar, skip og báta, hús og mannvirki í heilu eða hluta, sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Friðlýsing getur náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta minjastaðar, húss eða mannvirkis. Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi sem og samstæður húsa. Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 m friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra.

Friðlýstum menningarminjum má enginn, hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Mjög strangar kröfur eru gerðar til allra breytinga og alls rasks í tengslum við friðlýstar menningarminjar og umhverfi þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði 100 m umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.

 

Um réttindi og skyldur eigenda friðlýstra húsa og jarða með friðlýstum fornleifum sjá hér.