Hvaða réttindi og skyldur hef ég ef ég á friðlýst hús eða jörð með friðlýstum fornleifum?

Friðlýst hús, mannvirki og fornleifar hafa stöðu þjóðarverðmæta og felast mikil tækifæri í að hafa slíka eign á sínum snærum. Þau eru verðmæt í fleiri en einum skilningi orðsins og er mikilvægt að hlúa vel að þeim. Virðing fyrir hinum friðlýstu menningarminjum, sögu þeirra og gildi er grunnkrafa til eigenda.

Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins en landeigendur skulu viðhalda og hlúa að umhverfi minjanna eins og sanngjarnt getur talist. Eigendur friðlýstra húsa og mannvirkja skulu viðhalda sinni eign á eigin kostnað en geta sótt um styrk til viðhaldsframkvæmda í húsafriðunarsjóð sem Minjastofnun Íslands veitir úr einu sinni á ári. Friðlýst hús njóta ákveðins forgangs við styrkúthlutanir. Sinni eigandi friðlýsts húss ekki viðhaldi þess getur Minjastofnun Íslands, að undanförnum viðvörunum, látið framkvæma nauðsynlegt viðhald og umbætur á kostnað eiganda. Heimilt er að lækka eða fella niður fasteignagjöld af friðlýstum fasteignum og landareignum sem á eru friðlýstar fornleifar.

Friðlýstum menningarminjum má enginn, hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Mjög strangar kröfur eru gerðar til allra breytinga og alls rasks í tengslum við friðlýstar menningarminjar og umhverfi þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði 100 m umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.

 

Sjá nánar um hvað er friðlýsing.