Hvað er skyndifriðun?
Skyndifriðun er verndaraðgerð sem skv. 20. gr. laga um menningarminjar (nr. 80/2012) er hægt að beita á menningarminjar sem ekki eru friðlýstar eða njóta lögbundinnar friðunar vegna aldurs. Skyndifriðun er hægt að beita ef hætta er á að minjum sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra verði rýrt á einhvern hátt. Á meðan á skyndifriðun stendur gilda reglur um friðlýsingu. Frá því að ákvörðun um skyndifriðun er tekin og hún tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum gildir hún í sex vikur. Á þeim tíma vinnur Minjastofnun Íslands að gerð tillögu um friðlýsingu menningarminjanna sem stofnunin leggur fyrir ráðherra sem í kjölfarið ákveðir hvort friðlýsa eigi viðkomandi menningarminjar.