Ég vil flytja menningarverðmæti til útlanda, hvað geri ég?
Um inn- og útflutning menningarverðmæta gilda lög um menningarminjar nr. 80/2012. Ekki má flytja úr landi innlendar eða erlendar menningarminjar án formlegs leyfis Minjastofnunar Íslands. Til slíkra menningarminja teljast m.a. forngripir (100 ára og eldri), málverk, teikningar, frumeintök af stungum, þrykki og höggmyndum, ljósmyndir og kvikmyndir sem eldri eru en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, bækur prentaðar á Íslandi og íslensk handrit eldri en frá árinu 1800, aðrar bækur eldri en 100 ára, skjalasöfn og hlutar þeirra eldri en 50 ára, dýrafræðileg-, grasafræðileg, líffræðileg- og jarðfræðileg söfn og samgöngutæki eldri en 75 ára (tæmandi lista má finna í 45. gr. laganna).
Sótt er um leyfi til flutnings menningarminja úr landi með því að skila inn sérstöku eyðublaði sem finna má á heimasíðu Minjastofnunar Íslands. Mikilvægt er að sótt sé um ofangreint leyfi enda er listi yfir leyfisveitingar mikilvæg heimild um þær menningarminjar sem fluttar hafa verið úr landi og staðsetningu þeirra erlendis. Ekki síst er listinn mikilvægt gagn ef menningarminjar glatast eða er stolið erlendis.
Í flestum tilfellum er leyfi til útflutnings veitt án vandkvæða og er m.a. skylt að veita leyfi ef eigandinn er að flytja búferlum til annars lands eða ef viðkomandi munir komast í eigu einstaklings sem er búsettur erlendis með arfi eða vegna búskipta. Við flutning menningarminja úr landi skal sá sem flytja vill menningarverðmæti úr landi framvísa formlegu leyfisbréfi til tollyfirvalda sem staðfestir leyfi til flutningsins.
Minjastofnun Íslands er heimilt að koma í veg fyrir flutning menningarminja úr landi, án tillits til aldurs og verðgildis, ef minjarnar teljast til þjóðarverðmæta.