Er húsið mitt friðað/Hvað er húsið mitt gamalt?
Hús sem náð hafa 100 ára aldri eru friðuð. Til að átta sig á því hvort hús er friðað þarf því að vita aldur þess. Hægt er að fá upplýsingar um aldur húsa eftir ýmsum leiðum.
Í Fasteignaskrá er gefið upp byggingarár húsa. Hins vegar segir það ártal sem þar er gefið upp ekki alla söguna því mörg hús sem ekki eru í notkun eru ekki skráð og í mörgum tilvikum er árið sem byggt var við húsið eða því breytt á einhvern hátt skráð sem byggingarár. Auk þess er skráð byggingarár húsa sem hafa verið flutt um set oft á reiki. Þá liggja í mörgum tilvikum ekki fyrir upplýsingar um byggingarár húsa og því er skráð byggingarár ekki rétt. Því er nauðsynlegt að leita víðar að upplýsingum um byggingarár.
Þær húsakannanir sem gerðar hafa verið gefa oft mjög gagnlegar upplýsingar. Á vef Minjastofnunar er skrá yfir þær kannanir sem stofnuninni er kunnugt um að hafi verið gerðar og til eru hjá Minjastofnun.
Auk þess eiga héraðsskjalasöfn og byggðasöfn vítt og breitt um landið ýmsar upplýsingar, t.d. brunavirðingar og jafnvel gamlar ljósmyndir, sem oft koma sér vel til að finna upphaflega byggingarárið. Hjá byggingarfulltrúum sveitarfélaga má einnig oft nálgast frumteikningar af húsum og mörg sveitarfélög eru þegar komin með teikningar á vefsjár sínar.
Minjastofnun Íslands vinnur að skráningu friðaðra húsa. Þar eru fúslega veittar þær upplýsingar sem liggja fyrir hjá stofnuninni.
Tengdar síður fyrir hús í Reykjavík:
Á Borgarsögusafni er til Húsaskrá Reykjavíkur.
Á vef Borgarskjalasafns er leitarsíða fyrir brunavirðingar 1811-1953.
Í Borgarvefsjá er m.a. hægt að nálgast teikningar af húsum.
Sjá nánar um hvað er aldursfriðun.