Akureyri
  • 2316

Aðalstræti 16

Byggingarár: 1900.

Hönnuður: Sigtryggur Jónsson snikkari frá Espihóli.

Breytingar: Við bakhlið var einnar hæðar viðbygging sem síðar var hækkuð. Á miðjum svalagangi var anddyri með glervegg á framhlið og tröppur upp á svalir til beggja enda.[1] Anddyri og suðurtröppur hafa verið fjarlægðar.

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til ytra borðs.[2]

 

Aðalstræti 16 er tvílyft timburhús með lágu risþaki, 12,64 m að lengd og 8,96 m á breidd. Við bakhlið þess er einnar hæðar viðbygging með þaksvölum, 2,20 m að lengd og 2,72 m á breidd, og við norðurhlið þess er þriggja hæða viðbygging með lágu risþaki, 2,88 m að lengd og 2,72 m á breidd. Við norðurgafl hússins er tveggja hæða stigahús með valmaþaki, 1,96 m að lengd og 4,44 m á breidd. Húsið stendur á háum steinhlöðnum kjallara en stigahús stendur á stoðum og steinsteyptum sökkli og viðbygging við bakhlið er á steinsteyptum sökkli. Á framhlið jarðhæðar eru inndregnar svalir og handrið með randskornum rimum á frambrún milli sex stoða sem styðja undir efri hæð hússins. Bogaþil með ferstrendum rimum er á milli stoða að ofanverðu. Veggir eru klæddir vatnsklæðningu og hornborðum og hæðarskilsband er fyrir ofan svalagang og er dregið fyrir gafla að viðbyggingum. Á framhlið, suðurstafni og bakhlið hússins eru samtals 21 sex rúðu krosspóstagluggar og tveir að auki á stigahúsi við norðurgafl. Á framhlið kjallara eru tveir sex rúðu gluggar með miðpóst, einn á hvoru gaflhlaði hússins og níu á viðbyggingu við bakhlið. Tveir kjallaragluggar eru á suðurstafni og einn að norðanverðu undir stigahúsi. Útidyr eru á miðri jarðhæð, á viðbyggingum við bakhlið og norðurstafn og á miðri framhlið kjallara.


[1] Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 77-79. Torfusamtökin 1986.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Aðalstrætis 16 á Akureyri.