Akureyri
  • 0501

Davíðshús, Bjarkarstígur 6

Byggingarár: 1944.

Hönnuður: Hörður Bjarnason arkitekt

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[1]

 

Davíðshús er einlyft steinsteypuhús með lágu brotnu valmaþaki og kjallara undir austurhluta. Húsið er tvískipt, meginhluti þess er 15,06 m að lengd og 9,15 m á breidd en útbygging við norðvesturhorn er 6,46 m að lengd og 4,77 m á breidd og gengur 1,29 m út fyrir veggi meginbyggingar. Heildarlengd hússins er 16,35 m og breidd 10,44 m. Veggir eru húðaðir með steinefnum, á þeim efst er múrhúðað þakskegg og þak er bárujárnsklætt. Á því austarlega er reykháfur og lúga að norðanverðu. Á húsinu eru misstórir gluggar með lóðréttum póstum og á þeim stærri, á framhlið, vesturhlið og bakhlið, er þverpóstur neðarlega í gluggum og að auki er 18 rúðu fjölpóstagluggi á vesturhlið. Minni gluggar eru austarlega á framhlið og á austurhlið og lágir gluggar eru á kjallara. Um einn glugga á framhlið og annan á vesturhlið er steinsteyptur múrhúðaður gluggaumbúnaður en undir öðrum gluggum er þunnt múrhúðað vatnsbretti. Útidyr eru á miðri framhlið og að þeim steinsteyptar tröppur. Dyrnar eru inndregnar og um þær steinsteyptur dyraumbúnaður; stoðir hvorum megin dyra ná upp undir þakskegg og á milli þeirra yfir dyrum er inndreginn þverbiti og á honum þrjár stoðir upp undir þakskegg. Kjallaradyr eru á austurhlið.

Inn af útidyrum er forstofa og skáli norðan megin í húsinu. Stofa er í vesturenda hússins og önnur í útbyggingu, borðstofa er inn af skála að austanverðu og eldhús í norðausturhorni og stigi til kjallara. Gangur er í miðju húsi að austanverðu, baðherbergi við enda hans við austurhlið og tvö herbergi sunnan megin gangs. Veggir og loft eru múrhúðuð og í skála eru horn hvilftuð en steinsteypt veggbrún er ofarlega á veggjum og hvilftuð kverk efst undir lofti. Í kjallara er lítil íbúð.[1] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Davíðshúss.