Akureyri
  • 1212

Menntaskólinn á Akureyri

Eyrarlandsvegur 28

Byggingarár: 1904–1905.

Hönnuðir: Snorri Jónsson timburmeistari gerði uppdrátt af húsinu sem Sigtryggur Jónsson byggingarmeistari hússins lagði til grundvallar byggingarteikningum sínum. Talið er að Stefán Stefánsson, kennari við skólann og síðar skólameistari, hafi sagt fyrir um innra skipulag hússins.[1]

Breytingar: Upphaflega var húsið klætt vatnsklæðningu og band á milli kjallara og vatnsbrettis undir gluggum jarðhæðar var klætt lóðréttri panelklæðningu. Útidyr voru á suður- og norðurvegg hliðarálma. Suðurhlið var klædd bárujárni 1915 og anddyri byggt við bæði suður- og norðurhlið og 1925 var lokið við að klæða allt húsið bárujárni.[2]

Hönnuðir: Ókunnir.

Tengibygging reist milli skólans og Möðruvalla 1996.

Hönnuðir: Gísli Kristinsson og Páll Tómasson arkitektar.[3]

Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[4]

 

Menntaskólinn er tvílyft timburhús með risþaki og stendur á háum steinhlöðnum kjallara. Húsið er U-laga að grunnformi og meginbyggingin, sem snýr í austur, er um 42,5 m að lengd og 8,6 m á breidd. Hliðarálmur eru við hvorn enda meginbyggingar, 10,1 m að lengd og 9 m á breidd. Framhlið hússins er sett tveimur stöfnum sem ganga 0,6 m út úr vegg hennar og marka þeir breidd hliðarálma. Á miðri framhlið er miðjukvistur sem gengur þvert í gegnum þak hússins og nær jafnlangt fram úr húsinu og stafnar. Við hvorn gafl meginbyggingar er anddyri, eitt á bakhlið og eitt við gafl suðurálmu. Tengigangur er við miðja bakhlið hússins yfir í nýbygginu vestan við skólann.

Kjallaraveggir eru múrhúðaðir og halla inn að ofan og veggir eru klæddir bárujárni. Samfelld vatnsbretti eru undir gluggum 1. og 2. hæðar á framhlið meginbyggingar og á norður- og suðurhliðum og göflum hliðarálma. Þau eru rofin við innri gaflhorn og við forstofur að sunnan og norðan. Bjór er yfir gluggum á jarðhæð meginbyggingar og utanvert á hliðarálmum. Hæðarskilsband er á stöfnum framhliðar fyrir ofan glugga 2. hæðar. Á framhlið kjallara eru 14 sex rúðu krosspóstagluggar og tveir á hvorri hlið forstofanna og einn fjögurra rúðu gluggi er á vesturhlið suðurforstofu. Á hliðarálmum og bakhlið hússins eru 18 kjallaragluggar, ýmist með tveimur eða fjórum rúðum.

Stórir tvípósta krossgluggar eru á framhlið hússins, 24 með níu rúðum og fjórir minni með sex rúðum. Tveir sex rúðu gluggar eru á gaflhlaði stafna en efst á miðjukvisti er gluggi með þremur lóðréttum póstum og tveimur þverpóstum. Undir neðra þverpósti eru fjórar háar rúður en fjórar minni fyrir ofan og fyrir ofan þverpóst fyrir miðjum glugga eru tveir litlir gluggar. Skásettir rimar eru í fjórum gluggarömmum; efst og yst fyrir ofan neðri þverpóst. Á norðurálmu eru 15 sex rúðu krosspóstagluggar; sjö á norðurhlið, tveir á vesturgafli og sex á suðurhlið og að auki tveir heldur minni á gaflhlaði. Svipuð gluggasetning er á suðurálmu en á suðurhlið eru átta gluggar, einn á gafli auk tveggja á gaflhlaði og sex á norðurhlið. Gluggar á 1. hæð eru fjögurra rúðu en sex rúðu á efri hæð og risi. 11 sex rúðu krosspóstagluggar eru á bakhlið meginbyggingar.

Tveir sex rúðu krosspóstagluggar eru á norðurhlið norðuranddyris, útidyr með spjaldsettum og glerjuðum vængjahurðum, þverglugga, hálfsúlum og bjór er á austhlið og kjallaradyr á vesturhlið. Á anddyri er risþak með heilvalma upp af norðurhlið. Anddyri við húsið sunnanvert er með risþak, dyr eru á vesturhlið með spjaldsettum vængjahurðum, þverglugga, hálfsúlum og bjór. Þrír stórir gluggar eru á suðurhlið og einn á vesturhlið. Í þeim eru mjóir rimar um litlar litaðar rúður. Dyr eru á vesturhlið anddyris við bakhlið hússins og á því er lágt risþak. Anddyri við vesturgafl suðurálmu er með risþak, dyr á norðurhlið og þriggja rúðu glugga á suðurhlið.

Fjórir þakkvistir með lágu risþaki og sex rúðu krosspóstaglugga eru á framhlið þaks og tveir á vesturhlið og samtals eru fjórir þakgluggar á húsinu. Tveir skorsteinar eru á bakhlið þaks. Undir þakskeggi og þakbrúnum hliðarálma og miðjukvists eru skornir sperruendar. Á hvorum framstafni yst undir þakbrún er gaflskraut; hanabjálki og hengisúla, og er gagnskorið skrautverk fellt á milli þeirra og gagnskorin burstrós er að ofan. Á miðjukvisti eru tveir hanabjálkar, sá neðri rofinn, og þrjár hengisúlur. Gagnskorið verk er fellt á milli þeirra en fyrir miðju er það sveigskorið á neðri brún. Gagnskorin burstrós er á mæni og fánastöng upp af henni.[1] Tryggvi Gíslason. Gamla skólahús Menntaskólans á Akureyri 100 ára. Morgunblaðið, 14. nóvember 2004.

[2] Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. Af norskum rótum. Akureyri – höfuðstaður Norðurlands, 196-200. Mál og menning. Reykjavík 2003.

[3] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Menntaskólinn á Akureyri.

[4] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Menntaskólans á Akureyri.