Akureyri
  • 0599

Hafnarstræti 20

Höephnershús

Byggingarár: 1911.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

 

Höepfnershús er tvílyft timburhús með hornsneiðingu að suðvestanverðu og útbyggingu fyrir ofan, 15,20 m að lengd og 10,70 m á breidd. Húsið stendur á lágum steinsteyptum kjallara og við austurhlið þess er bakdyraskúr með risþaki. Á húsinu er bárujárnsklætt risþak með kvisti með háu risþaki yfir hornsneiðingu, annar er yfir suðausturhorni og einn minni norðarlega á austurhlið. Svalir eru á rishæð framan við kvisti á suðurhornum. Þakkvistur með bogaþaki er á austurhlið þaks. Heilvalmi er á þaki upp af norðurhlið og brot í því neðarlega. Á húsinu eru sex þakgluggar og skorsteinn nærri mæni að vestanverðu. Veggir eru klæddir vatnsklæðningu upp undir glugga á efri hæð en efsti hluti veggja á milli glugga er klæddur lóðréttum panelborðum. Lóðrétt borð eru á hornum og vatnsbretti fyrir ofan glugga jarðhæðar og fyrir neðan og ofan glugga á efri hæð eru leidd umhverfis húsið. Fimm steypujárnsgluggar með þremur rúðum eru á kjallara; fjórir á norðurhlið og einn á austurhlið og á vesturhlið er op með hlera fyrir. Á jarðhæð hússins eru gólfsíðir verslunargluggar með þverpósti og þverglugga efst með fimm rúðum; tveir að sunnanverðu og þrír að vestanverðu og einn minni að auki. Þrír stórir krosspóstagluggar með 20 rúðum eru á norðurhlið og tveir á austurhlið en án ramma. Efri hæð hússins er sett gluggum með miðpósti og 16 rúðum; fimm eru á vesturhlið, þrír á norðurhlið og austurhlið og tveir á suðurhlið. Að auki eru á norðurhlið tveir gluggar með átta rúðu ramma og sex á hornútbyggingu. Útidyr eru á hornsneiðingu með spjaldsettri og glerjaðri hurð. Hvorum megin við hana eru gólfsíðir mjóir gluggar með þverpósti og þverglugga með þremur rúðum og yfir hurðinni er þriggja rúðu þvergluggi. Aðrar dyr eru á vesturhlið norðarlega og yfir þeim bogadreginn gluggi með fimm lóðréttum rúðum og bogabjór. Bakdyr eru á vesturhlið hússins. Að svölum eru glerjaðar hurðir og bogadreginn skjöldur yfir og smárúðóttir gluggar hvorum megin dyra. Um svalir er þéttklætt handrið með skásettum rimum á milli stoða. Smárúðóttar vængjahurðir eru á austurkvisti og yfir þeim vörugálgi. Á bogakvisti er gluggi með tveimur póstum og þremur sex rúðu römmum og hnúður fremst á bogaþaki. Hanabjálki og hengisúla eru á suðurkvistum og vesturkvisti gengur súlan upp fyrir mæni og er skorin á enda. Fánastöng er upp af vesturkvisti.


[1] Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 123. Torfusamtökin 1986.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Höepfnershúss.