Akureyri
  • 0600

Norðurgata 17

Gamla prentsmiðjan

Byggingarár: Suðurhluti reistur 1882 en norðurhluti 1884.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð í B-flokki af menntamálaráðherra 24. nóvember 1982 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

 

Norðurgata 17 er tvö sambyggð hlaðin steinhús á kjallara.

Suðurhluti hússins er tvílyftur og með lágu risþaki, 5,3 m að lengd og 6,9 m á breidd, og með forstofu með skúrþaki við suðurstafn, 1,3 m að lengd og 2,4 m á breidd. Veggir eru steinhlaðnir og að hluta til múrsléttaðir en forstofa er að hluta til steinsteypt og að hluta til úr timbri og er efri hluti veggja klæddur plötum. Þök eru bárujárnsklædd og gaflhlað er klætt láréttum borðum. Á hverri hinna þriggja hliða hússins eru þrír sex rúðu krosspóstagluggar. Einu gluggagati á efri hæð á framhlið hússins hefur verið lokað með timburklæðningu og steypt upp í annað á bakhlið. Tveir fjögurra rúðu kjallaragluggar eru á framhlið og tveir á bakhlið. Einnar rúðu gluggi er á suðurhlið forstofu. Að útidyrum á austurhlið forstofu eru steinsteyptar tröppur og kjallaratröppur að vestanverðu.

Norðurhluti hússins er tvílyftur og með risþaki og snýr stafn að götu, 8,5 m að lengd og 7,7 m á breidd. Við norðurhlið hússins er tvílyft timburviðbygging á steinsteyptum sökkli og með skúrþaki, 3,2 m að lengd og 5,8 m á breidd. Veggir eru steinhlaðnir og að hluta til múrhúðaðir og gaflhlað að vestanverðu er klætt láréttum plægðum og strikuðum borðum. Á hvorum stafni eru sex fjögurra rúðu krosspóstagluggar og á gaflhlöðum tveggja rúðu gluggi með þverpósti ofarlega og tveir litlir gluggar og eru í öðrum þeirra á framhlið tvær rúður en ein í hinum og þeim sem er á bakhlið. Kjallaragluggar eru tveir hvorum megin og fyrir þeim timburklæðning. Útidyr eru á framhlið norðarlega og að þeim steinsteyptar tröppur og kjallaratröppur á miðri bakhlið. Viðbygging er klædd listaþili. Tveir tveggja rúðu gluggar eru á austurhlið viðbyggingar, sá neðri með miðpósti og sá efri með þverpósti ofarlega og er annar gluggi eins á bakhlið og einnar rúðu gluggi á vesturhlið. Bakdyr eru á vesturhlið og að þeim trétröppur.[1] Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. Oddeyri. Húsakönnun 1990-1994, 71-72. Minjasafnið á Akureyri í samvinnu við Skipulagsdeild Akureyrarbæjar 1995.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Norðurgötu 17 á Akureyri.