Austurland
  • 1005

Bustarfell

Vopnafjörður

Byggingarár: Um miðja 19. öld en er eldri að stofni til.

Hönnuður: Fremri stofu, sem reist var 1851–1852, Einar Einarsson bóndi og gullsmiður á Bustarfelli.

Hönnuður: Baðstofu og stofu undir henni sem reist var 1877, Árni Jónsson snikkari frá Hólum í Vopnafirði.[1]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1943.

Minjasafn frá 1982.[2]

Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bustarfell er torfhús, að hluta til byggt úr steinsteypu, sem telur 17 hús, um 30 m að lengd og 26 m á breidd, og að auki stendur við bæinn þerrihjallur. Bærinn snýr stöfnum sex portbyggðra húsa til suðausturs fram á bæjarhlað. Vestast eru þrjár skemmur: fremsta skemma, Jónsskemma og smíðaskemma. Þá koma þrjú portbyggð hús; fremri stofa, bæjardyr og baðstofuhús austast. Í innri hluta bæjardyra er þverþil, stigi að austanverðu upp á bæjardyraloft en kompa í veggnum að vestanverðu. Innan við bæjardyr er þvergangur. Á ganginum vestanverðum er stigi upp á tvískipt svefnloft yfir fremri stofu, kallað Uppi hjá okkur. Við enda þvergangs er eldhús og á því dyr að Dimma gangi í innri hluta tveggja austari skemmanna. Norðan megin við þvergang eru kyndiklefi og salerni, bæði með steinsteyptum veggjum. Að austanverðu er gengið af ganginum inn á gang með stiga og litlu búri á neðri hæð baðstofuhúss. Ytri stofa, eða gestastofa, er í suðurenda og pilthús í norðurenda. Miðbaðstofa er í miðhluta efri hæðar og kames gegnt siga að vestanverðu, hjónahús er í suðurenda og gestaherbergi í norðurenda. Gegnt bæjardyrum eru dyr að bæjargöngum, krókgangi, sem liggja fyrst til norðurs en sveigja til vesturs að hlóðaeldhúsi. Steinsteyptir veggir eru vestan megin í bæjargöngum og sunnan megin í hlóðaeldhúsi. Norðan bæjarganga og austan hlóðaeldhúss er jarðfastur klettur sem bæjarhúsin eru byggð í kringum. Fremra búr og tunnubúr eru vestan við hlóðaeldhús og fjós norður úr hlóðaeldhúsi. Gaflar í fjósi eru steinsteyptir og við austurenda þess er haughús en skemma að vestanverðu. Vestast á norðurfjósvegg eru dyr að brunnhúsi og inn af því að vestanverðu er kofi. Smiðja er norðan við baðstofuhús og vestan við fremra búr er hjallur.

Neðri hluti veggja er hlaðinn úr grjóti en efri torfhlaðinn og á húsunum flestum er risþak klætt bárujárni undir torfþekju. Stafnar framhúsa, smiðju og norðvesturskemmu eru klæddir listaþili en bakstafnar framhúsa eru pappaklæddir og frá þeim er gengið með vindskeiðum með afturslætti. Á tveimur vestustu skemmunum eru tveir fjögra rúðu gluggar og dyr austast á stöfnum. Dyr eru á miðjum stafni austustu skemmunnar og á stafninum þrír fjögra rúðu gluggar og einn á gaflhlaði að norðanverðu. Þrír sex rúðu gluggar eru á stofuþili og fjögra rúðu gluggi að norðanverðu. Útidyr eru á miðju bæjardyraþili, tveggja rúðu gluggi er við þær hvorum megin og samfellt vatnsbretti yfir þeim og sveigskorin brík yfir dyrum. Fjögra rúðu gluggi er upp yfir dyrum og annar bakatil. Á baðstofuþili eru þrír sex rúðu gluggar með miðpósti, á austurhlið eru tveir gluggar í djúpum glugghúsum, annar þeirra tvískiptur með tveimur þriggja rúðu römmum sem bera birtu að stiga og búri og hinn glugginn er með sex rúðum og er á norðurherbergi. Á súð að austanverðu er kvistur með tveggja rúðu glugga, einn að vestanverðu og fjórir með fjögra rúðu glugga. Dyr eru á miðju smiðjuþili og fjögra rúðu gluggi, breiðar dyr eru á norðurhlið haughúss, dyr eru á brunnhúsi og aðrar á norðurhlið kofa og tveggja rúðu gluggi á gaflhlaði vestan megin og tveggja rúðu gluggi á fjóssúð. Tvíbreiðar dyr eru á norðvesturskemmu og fjögra rúðu gluggi yfir þeim. Tveir þriggja rúðu gluggar eru á vesturhlið búrs og gluggi er á gaflhlaði hlóðaeldhúss að sunnanverðu. Skúrþak er yfir bæjargöngum, salerni, kyndiklefa og eldhúsi og tyrft að hluta. Þakgluggi er yfir bæjargöngum og salerni og gluggi efst á vesturhlið eldhúss. Hjallur er klæddur rimum á grind og þak er bárujárnsklætt.

Veggir í skemmunum þremur eru að innan hlaðnir úr grjóti og streng og framþil eru óklædd að innan. Í skemmunni að vestanverðu eru stoðir, skástífur, þverbitar, veggsyllur og toppsperrur, með hanabjálkum ofarlega, og reisisúð á langböndum. Hinar tvær skemmurnar eru eins útbúnar en eru loft á bitum og kálfsperrum og gaflhlöð að framanverðu eru borðaklædd. Bæjardyr eru klæddar standþiljum með ánegldum brjóstlista, loft er borðalagt á bita og bæjardyraloft er klætt standþiljum og panelborðum og yfir er reisisúð á langböndum og krosssperrum. Gangur er klæddur sléttum panelborðum og plötum og yfir er slétt panelklætt loft. Vesturstofa er klædd brjóstþili með reitum að ofan og loft er borðalagt á klædda bita. Stofuloft að norðanverðu er klætt spjaldaþili en brjóstþili og standþiljum að framanverðu. Gangur á neðri hæð baðstofuhúss er klæddur standþiljum og sléttum panelborðum, búr er klætt spjaldaþili, sléttum panelborðum og plötum. Stofa er klædd brjóstþili með standþiljum að neðan og veggfóðri að ofan og herbergi klætt spjaldaþili. Í þessum herbergjum er loft plötuklætt milli klæddra bita. Baðstofa og suðurherbergi eru klædd spjaldaþili og standþiljum, kames er klætt spjaldaþili með plötum og norðurherbergi er klætt strikuðum panelborðum. Í þessum herbergjum er reisisúð á langböndum en í suðurherbergi súð borðaklædd á sperrur. Eldhús, kyndiklefi og salerni eru múrhúðuð og hluti eldhúss einnig plötuklæddur. Í eldhúsi og kyndiklefa er plötuklædd súð en panelklædd á salerni. Í bæjargöngum eru annars vegar múrhúðaðir veggir og torfhlaðnir og yfir bárujárn á langböndum og bitum. Suðurgafl í hlóðaeldhúsi er múrhúðaður en aðrir veggir torfhlaðnir. Stoðir eru við veggi, veggsylla og þverbitar. Undir endilöngu þaki eru tveir ásar sem studdir eru stuttstoðum á þverbitunum. Raftar eru á milli veggja og ása og á þeim skarsúð eða reiðingur. Stuttbitar eru á milli ása og á þeim gisin borðaklæðning og reiðingur. Torfveggir eru í búri, stoðir, veggsylla, þverbitar, krosssperrur með hanabjálkum og langböndum undir bárujárni. Í fjósi styðja básastoðir undir mænisás og á honum eru raftar út á veggsyllu ofan á veggstoðum. Þak á kofa og brunnhúsi hvílir á vegglægju ofan á torfveggjum og eru stoðir undir sumum sperrum út við vegg. Mænisás er undir sperrum og stoð undir hvorum enda, langbönd á sperrum og bárujárn yfir. Í haughúsi eru torfveggir og steinsteyptur veggur, stoðir, veggsylla, sperrur og á þeim langbönd og bárujárn. Undir sperrum er mænisás studdur stoðum. Á smiðju er sperruþak á þverbitaendum á veggsyllu og stoðum og hanabjálkar  á þeim ofarlega, langbönd og bárujárn. Í norðvesturskemmu er bárujárnsþak á langböndum og sperrum. Íveruhús bæjarins eru máluð að innan nema bæjardyraloft.


[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 67. Reykjavík 1998.

[2] Þjms. Húsasafn. Skjalasafn. Bustarfell.