Austurland
  • 1786

Hofskirkja, Vopnafirði

Byggingarár: 1901.

Hönnuður: Björgólfur Brynjólfsson forsmiður frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal.[1]

Breytingar: Kirkjan var klædd bárujárni í upphafi en var klædd trapisumótuðum plötum 1980.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hofskirkja er timburhús, 10,31 m að lengd og 7,81 m á breidd, með turn við vesturstafn, 1,86 m að lengd og 4,03 m á breidd. Stöpull er tvískiptur, breiður að neðan og á honum rismikið þak upp að ferstrendum efri hluta. Á honum er ferstrendur burstsettur turn með ferstrendri spíru. Á þremur turnhliðum er bogadregið hljómop með hlera. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er klædd trapisumótuðum plötum og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni, tveir hringgluggar eru á framstafni kirkju en einn á framhlið stöpuls. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim. Aftursættir þverbekkir eru hvorum megin gangs og veggbekkir í kór. Setsvalir á fjórum stoðum eru yfir fremri hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Dyr með glerjaðri hurð eru að stöpli frá setsvölum. Veggir eru klæddir spjaldaþili upp undir glugga en breiðum þiljum að ofan. Gaflar eru klæddir reitaþiljum uppi undir hvelfingu. Yfir kirkjunni er reitaskipt stjörnusett hvelfing.[1] ÞÍ. Bps. C, V. 32. Bréf 1902. Reikningur yfir byggingu kirkjunnar á Hofi í Vopnafirði í Norðurmúlaprófastsdæmi árið 1901.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hofskirkja í Vopnafirði.