Austurland
  • 0326

Hjaltastaðarkirkja

Fljótsdalshérað, N-Múlasýsla

Byggingarár: 1880–1881.

Hönnuður: Finnbogi Sigmundsson forsmiður,[1] en Þorgrímur Jónsson forsmiður frá Gilsá hefur einnig verið talinn hönnuður kirkjunnar.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hjaltastaðakirkja er timburhús, 10,50 m að lengd og 6,37 m á breidd, með forkirkju undir minna formi, 2,41 m að lengd og 3,86 m á breidd. Þök eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er krosspóstur og sex rúður í römmum. Fjögurra rúðu póstgluggi er á framstafni forkirkju uppi yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Uppi yfir dyrum er bjór og undir honum, hvorum megin dyra, flatsúla með súluhöfuð. Fram undan dyrum eru trétröppur með sex þrepum.

Sunnan megin í forkirkju er stigi upp á forkirkjuloft og spjaldsettar og glerjaðar vængjahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur og aftursættir þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir og langbekkir í kór. Prédikunarstóll er innan miðglugga sunnan megin og kórþil með renndum pílárum milli stóls og veggjar. Veggir forkirkju eru klæddir póstaþili en framkirkja og kór reitaþiljum. Efst á veggjum er strikasylla uppi undir reitaskiptri hvelfingu stafna á milli.


[1] ÞÍ. Bps. C, V. 31. Bréf 1884. Reikningur yfir byggingarkostnað Hjaltastaðarkirkju m.fl., ásamt fylgiskjölum.

[2] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 231. Reykjavík 1998.