Austurland
  • 0147

Áskirkja

Fellahreppur, Fljótsdalshéraði

Byggingarár: 1898.

Hönnuður: Vigfús Kjartansson

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Áskirkja er timburhús, 10,86 m að lengd og 6,37 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með íbjúgu píramítaþaki. Kirkjan er klædd lóðréttum strikuðum panelborðum, þak bárujárnsklætt, og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar og þrír minni á framstafni; einn hvorum megin dyra og einn uppi á stafninum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Forkirkja er stúkuð af framkirkju með þverþili. Í henni sunnan megin er afþiljað skrúðhús en stigi norðan megin til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju. Á þverþilinu eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju og gangur inn af þeim. Hvorum megin hans eru aftursættir þverbekkir en langbekkir og veggbekkir umhverfis í kór. Tvö járnstög eru í gegnum frambrún sönglofts og upp í gegnum hvelfingu. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og yfir kirkjunni er panelklædd hvelfing stafna á milli.