Austurland
  • 2329

Dalatangaviti

Dalatangaviti

Byggingarár 1895.

Hönnuður: Ókunnur en Sigurður Sveinsson steinsmiður hlóð vitann.[1]

Athugasemd: Vitinn var tekinn úr notkun 1908, féll í vanhirðu en var endurbyggður árið 1985-1987.

Í vörslu Sjóminjasafns Austurlands frá 1985.[2]

Friðaður af menntamálaráðherra 6. júlí 2006 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun nr. 104/2001, friðun tekur til ytra og innra borðs.[3]

 

Dalatangaviti er steinhlaðið hús, 4,96 m að lengd og 4,08 m á breidd, með hornsneiðingum á framgafli, 1,45 m að lengd og er breidd framstafns 1,65 m. Á vitahúsinu er bárujárnsklætt risþak og reykrör á norðurhlið. Upp af framstafni er lágt ferstrent ljóshús með glerveggjum á þremur hliðum og lágt píramítaþak og reykrör upp af. Píramítaþak og vesturhlið ljóshúss eru klædd sléttu járni. Veggir eru grófsléttaðir og gaflhlað að vestanverðu er steinsteypt. Sex rúðu gluggi með miðpóst er á suðurhlið og útidyr með fjalahurð á okum.

Inn af dyrum er lítil forstofa og inn af henni við vesturgafl er hálfniðurgrafin steinolíugeymsla. Ofan á henni er geymsluhilla opin að forstofu. Þverþil er á milli forstofu og herbergis vitavarðar í vesturhluta hússins, þar er lítill kolaofn úti í horni. Innst í herberginu er þverþil að skoti undir ljóshúsi og á því lítið gat með hlera. Úr skotinu er opið upp í ljóshúsið og inn á loft yfir herbergi. Þverþil eru smíðuð úr timbri og klædd strikuðum panelborðum og steinveggir í herbergi eru klæddir strikuðum panelborðum og loft yfir því er panelklætt neðan á bita. Yfir húsinu er borðasúð á sperrum. Húsið er ómálað að innan.


[1] ÞÍ. Stj. Ísl. II. Db. X, nr. 313. Bréf Otto Wathne til landshöfðingja 3. ágúst 1895.

[2] Geir Hólm. Bréf til höfundar 1999; Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson. Vitar á Íslandi, 47, 332.  Kópavogur 2002.

[3] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Dalatangavita.