Austurland
  • 0305

Brekkukirkja

Mjóifjörður

Byggingarár: 1892.

Hönnuður: Ólafur Ásgeirsson snikkari.[1]

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan timburklædd. Árið 1991 voru veggir klæddir trapisumótuðum stálplötum en þak bárustáli. Steypt var utan á steinhlaðinn sökkul kirkjunnar um 1950 og 1991 var hann klæddur með bárustáli.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Brekkukirkja er timburhús, 10,17 m að lengd og 6,40 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgu píramítaþaki sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er klædd trapisumótuðum stálplötum, þak bárustáli og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar. Bogagluggi er á framstafni yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og hvorum megin hans eru aftursættir þverbekkir með klæddum bökum en langbekkir og veggbekkir umhverfis í kór. Söngloft, bogadregið á frambrún, er yfir fremsta hluta framkirkju og sveigður stigi í norðvesturhorni. Tvær stoðir eru undir frambrún sönglofts og tvö járnstög ganga frá brúninni upp í gegnum hvelfingu. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum, strikasylla er efst á veggjum undir panelklæddri hvelfingu stafna á milli.[1] ÞÍ. Bps. C, V. 41. Bréf 1896. Byggingarreikningur Mjóafjarðarkirkju að Brekku 1892, ásamt fylgiskjölum.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Brekkukirkja í Mjóafirði.