Austurland
  • 0152

Reyðarfjarðarkirkja

Búðargata 1

Byggingarár: 1910.

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]

Breytingar: Turn endurbyggður frá grunni 1924 sökum leka, kirkjan klædd texplötum að innan árið 1944 og á árabilinu 1963–1965 voru settir nýir og breyttir gluggar í kirkjuna, steypt upp í glugga á kórbaki og kirkjan klædd innan með spónaplötum. Á árunum 1975–1976 voru smíðaðir nýir bekkir í kirkjuna og hún máluð innan af Jóni og Grétu Björnsson.

Viðbygging við kórbak og tenging við safnaðarheimili reist 1997.

Hönnuður: Björn Kristleifsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Reyðarfjarðarkirkja er steinsteypuhús, 12,70 m að lengd og 7,30 m á breidd, með tengibyggingu við kórbak milli kirkju og safnaðarheimilis, 2,63 m að lengd og 4,90 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er lágur stallur undir bárujárnsklæddum turni með hárri turnspíru sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er múrhúðuð en þök klædd bárujárni. Vindskeiðar skreyttar raðbogum eru efst á göflum uppi undir þakbrúnum kirkju og þakskeggi turns. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með krosspósti og fjórum rúðum. Á framstafni eru fimm gluggar, einn sömu stærðar yfir kirkjudyrum en minni gluggi hvorum megin hans og kirkjudyra. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir.

Forkirkja er skilin frá framkirkju með þvervegg og úr henni er gengið um stiga til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju. Spjaldsettar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór undir minna formi er innst í kirkju og klefar hvorum megin altaris. Skrúðhús er sunnan megin og gengið um það í prédikunarstól en gangur norðan megin að tengibyggingu milli kirkju og safnaðarheimilis. Veggir eru plötuklæddir og málaðir steinhleðslulíkingu en múrhúðuð hvelfing er yfir framkirkju en reitaskipt hvelfing yfir kór.


[1] ÞÍ. Bps. C, V. 42. Bréf 1913. Reikningur yfir byggingu kirkjunnar á Búðareyri, byggð árið 1910; Bréf 1911. Afhending sóknarkirkjunnar í Hólmasókn í hendur safnaðarins 15. febrúar 1911.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Reyðarfjarðarkirkja.