Austurland
  • 1468

Eskifjarðarkirkja

Bakkastígur 10

Byggingarár: 1900.[1]

Hönnuður: Brinak verkfræðingur.[2]

Athugasemd: Efni til kirkjusmíðinnar var flutt tilsniðið til landsins frá Svíþjóð.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Eskifjarðarkirkja var aflögð sem sóknarkirkja og afhelguð og árið 2006 samþykkti Húsafriðunarnefnd að leyft yrði að breyta kirkjuhúsinu í íbúðarhús.[4] Hér á eftir fer lýsing á Eskifjarðarkirkju fyrir þær breytingar:

 

Eskifjarðarkirkja er timburhús, 13,97 m að lengd og 8,92 m á breidd, með skrúðhúsi við kórbak, 1,15 m að lengd og 2,63 m á breidd. Risþak er á kirkju og klukknaport upp af vesturstafni. Á öllum hliðum klukknaportsins eru bogadregin op og píramítaþak yfir, sem gengur út undan sér að neðan. Undir klukknaporti er lágur stallur. Þak er klætt bárujárni, veggir klæddir lóðréttum panelborðum en norðurhliðin bárujárni og kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju er fjórir smárúðóttir gluggar burstsettir að ofan, einn á austurhlið skrúðhúss og þrír ofarlega á vesturstafni. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og bjór yfir.

Forkirkja er stúkuð af framkirkju með þverþili. Dyr eru á þilinu og í þeim spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju. Gangur er inn af dyrum og aftursættir bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep, altari er fyrir miðjum kórgafli og skrúðhús að baki þess. Söngloft er með þverum framgafli og stigi í suðvesturhorni framkirkju. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Yfir kirkjunni er borðaklætt risloft opið upp í rjáfur með sýnilegum sperrum, skammbitum og skástífum upp frá hliðarveggjum.


[1] ÞÍ. Bps. C, V. 41. Bréf 1902. Skýrsla um kirkjur í Suður-Múlaprófastsdæmi í fardögum árið 1901.

[2] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 247. Reykjavík 1998.

[3] ÞÍ. Bps. C, V. 31. Bréf 1902. Lýsing Eskifjarðarkirkju.

[4] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Eskifjarðarkirkja.