Austurland
  • 2128

Gamla búð, Eskifirði

Strandgata 39 B

Byggingarár: 1816.

Hönnuður: Ókunnur.

Breytingar: Flutt breidd sína frá götu 1971.

Sjóminjasafn Austurlands tók við húsinu 1981.[1]

Friðað í A-flokki af menntamálaráðherra 20. desember 1982 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

 

Gamlabúð er einlyft timburhús með krossreistu þaki, 16,0 m að lengd og 9,1 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum sökkli, hliðarveggir eru klæddir skarsúð en stafnar slagþili. Norðausturhlið þaks er klædd listasúð en suðvesturhlið rennisúð. Kvistur með risþaki og sex rúðu glugga er á framhlið þaks og einn þakgluggi. Á framhlið hússins eru þrír 12 rúðu gluggar með miðpósti og dyr með vængjahurðum á okum nærri norðurstafni. Tveir gluggar með sex rúðu ramma eru á gaflhlaði að norðanverðu og á milli þeirra vörudyr með vængjahurðum og vörugálgi yfir. Á bakhlið hússins eru tveir sex rúðu gluggarammar og einn 12 rúðu gluggi. Útidyr eru á miðjum suðurstafni og fyrir þeim fjalahurð á okum að utan og spjaldahurð að innan. Framan þeirra er trépallur girtur handriði með krosssettum slám milli stoða. Hvorum megin dyra er 12 rúðu gluggi með miðpósti og á gaflhlaði ofan útidyra eru vörudyr með vængjahurðum á okum og gluggi hvorum megin þeirra með sex rúðu ramma.

Krambúð er í suðurenda hússins inn af útidyrum, klædd spjaldaþili með sneiddum spjöldum að neðan og yfir er loft á klæddum bitum. Salur er í norðurhluta með stiga við norðurgafl og salerni er þiljað af í norðausturhorni. Þverþil að krambúð er klætt láréttri panelklæðningu, hliðarveggir eru óklæddir og norðurgafl er klæddur krossviði. Í salnum er loft á bitum. Rishæð er eitt rými opið upp undir mæni. Súðin er klædd skarsúð ofan á sperrur og á milli þeirra eru hanabjálkar. Gaflar eru óklæddir og húsið er ómálað að innan nema krambúð.[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, 54. Reykjavík 2000; Geir Hólm. Bréf til höfundar 1999.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal gömlubúðar á Eskifirði.