Austurland
  • 2330

Kolfreyjustaðarkirkja

Fáskrúðsfjarðarhreppur, S-Múlasýsla

Byggingarár: 1878.

Hönnuðir: Finnbogi Sigmundsson forsmiður frá Seyðisfirði.[1]

Kirkjan fauk 1991 og var endurbyggð í upprunalegri mynd 1991–1992.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Kolfreyjustaðarkirkja er timburhús, 9,58 m að lengd og 5,72 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er trékross á lágum stalli. Veggir eru klæddir listaþili en þak bárujárni og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og lítill gluggi með sexrúðu ramma á framstafni uppi yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri kirkjuhurð en bjór yfir með ártalinu 1878.

Inn af kirkjudyrum er gangur að kór og þverbekkir hvorum megin gangs. Kór er skilinn frá framkirkju með lágu spjaldaþilsklæddu kórþili í baki innstu bekkja. Í kórdyrum eru ferstrendir kórstafir, breiðir að neðan en mjórri ofan kórþils, og bogi á milli þeirra. Prédikunarstóll er sunnan megin í framkirkju framan kórþils og bök bekkja framan prédikunarstóls eru klædd niður í gólf. Veggbekkir eru í kór að altari. Setsvalir á bitum og tveimur stoðum eru yfir fremsta hluta framkirkju og stigi í suðvesturhorni. Veggir eru klæddir spjaldaþili en loft yfir kirkjunni er opið upp í rjáfur og klætt skarsúð á sperrur. [1] ÞÍ. Bps. C, V. 40. Bréf 1882. Reikningur yfir byggingarkostnað Kolfreyjustaðarkirkju árið 1878, ásamt fylgiskjölum.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Kolfreyjustaðarkirkja.