Austurland
  • Faktorshusid_1598886366154

Faktorshúsið, Djúpavogi

Byggingarár: 1848.

Breytingar: Steinsteypt viðbygging reist við suðurgafl um 1950.[1]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Faktorshúsið er einlyft timburhús með krossreistu þaki og stendur á háum steinsteyptum kjallara, um 15,1 m að lengd og 10,2 m á breidd. Við suðurstafn hússins er einlyft steinsteypt viðbygging á háum kjallara og á því valmaþak, um 7,5 m að lengd og 10,5 m á breidd. Kjallaraveggir Faktorshúss eru í fullri hæð að framanverðu en jafnháir jarðvegsyfirborði á bakhlið. Þeir eru sementskústaðir. Á miðri framhlið kjallara eru dyr og aðrar á norðurstafni. Veggir hússins eru klæddir sléttu járni nema bakhlið sem klædd er vatnsklæðningu. Þakið er bárujárnsklætt og á framhlið eru tveir þakkvistir með risþaki; lítill kvistur fyrir miðju húsi og annar stærri sunnar á þakinu og á þeim tveggja rúðu gluggar. Lítill kvistur með risþaki er á bakhlið, þakgluggi og reykháfur nærri mæni. Á framhlið hússins eru sex fjögra rúðu krosspósta gluggar og einn augnstunginn tveggja rúðu gluggi. Tveir augnstungnir tveggja rúðu gluggar eru á norðurstafni, krosspóstagluggi og tveir gluggar með hlera fyrir. Tvennar dyr eru á bakhlið, einn krosspóstagluggi og tveir augnstungnir gluggar með einni rúðu. Þriggja rúðu gluggi er efst á suðurstafni.

Inn af útidyrum á bakhlið er forstofa og gangur inn af henni. Herbergi er í norðvesturhluta hússins og tvö stór við framhlið. Sunnan við forstofu er önnur forstofa minni, en útidyr þar aflagðar, og stigi upp á loft. Í suðausturhorni er lítil forstofa inn af útidyrum og herbergi inn af henni, kompa og salerni. Úr forstofunni eru dyr á suðurgafli að viðbygginu. Framloft er á rishæð upp af stiga, þrjú herbergi við norðurgafl, tvö við framhlið og önnur tvö við bakhlið. Á hanabjálkalofti er herbergi í hvorum enda hússins. Veggir og loft hússins eru plötuklædd nema hanabjálkaloft en gaflar þar eru óklæddir að innan, þverþil er úr standþili og skarsúð er á sperrum.[1] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Faktorshúsið á Djúpavogi.