Austurland
  • 2079

Langabúð, Djúpavogi

Byggingarár: 1849 og 1852.

Athugasemd: Reist af viðum eldri húsa, norðurhluti er reistur 1849 en suðurhluti 1852.[1]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð af menntamálaráðherra í A-flokki 30. mars 1979 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Langabúð er einlyft timburhús með bröttu risþaki, um 38,9 m að lengd og 7,9 m á breidd. Húsið stendur á hlöðnum og steyptum sökkli, veggir suðurhluta eru klæddir slagþili en listaþili á norðurhluta og þak rennisúð. Gengið er frá veggjum með vatnsbretti og tvöföldum vindskeiðum og þaki með rennum og niðurföllum úr tré. Á suðurgafli eru tveir sex rúðu gluggar með miðpóst og á gaflhyrnu eru vörudyr með fjalahurðum á okum og þriggja rúðu glugga hvorum megin þeirra. Sami frágangur er á gaflhyrnu að norðanverðu en þar eru að auki á jarðhæð vörudyr með fjalahurðum á okum. Á framhlið eru sex sex rúðu gluggar og einn þriggja rúðu, útidyr eru nærri miðju húsi, fjalahurðir á okum nærri suðurstafni og fjalahurð á hliðinni norðarlega. Sjö þriggja rúðu gluggar eru á bakhlið, hlerar eru fyrir þremur gluggagötum að auki og fjalahurð á norðurhluta. Fjórir þakgluggar eru á vesturhlið og sex á austurhlið. Trépallur er framan við framhlið hússins sunnanverða.

Inn af útidyrum á austurhlið er stór forstofa í miðhluta hússins, móttaka, stigi upp á loft og snyrtingar. Í suðurenda hússins er kaffistofa og eldhús og búr við vesturhlið en sýningarsalur í norðurhluta. Tveir salir eru í risi, í miðhluta og suðurhluta, en geymsla er í norðurhluta hússins. Inn í veggjagrind á jarðhæð er fellt standþil og borð milli loftbita. Undir ás eftir endilöngu húsi styðja stoðir með krosstífum í norðurhluta en skástífum í suðurhluta og skástífur eru af gólfi og veggjum upp undir bita. Í risi er loft opið upp undir mæni klætt skarsúð á sperrur. Þverþil tvö á loftinu eru klædd standþili úr gamalli þakklæðningu, gaflar eru óklæddir nema neðri hluti suðurgafls sem klæddur er láréttum borðum.


[1] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Langabúð á Djúpavogi.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Löngubúðar á Djúpavogi.