Austurland
  • 0312

Djúpavogskirkja

Djúpavogi

 

Byggingarár: 1894.

Hönnuður: Lúðvík Jónsson forsmiður á Djúpavogi.[1]

Breytingar: Upphaflega voru þök kirkju og turns klædd pappa en voru klædd bárujárni skömmu fyrir 1903. Veggir voru líklegast klæddir plægðum borðum en kórbak var klætt bárujárni 1907 og aðrar hliðar um 1925. Bogagluggar voru smíðaðir í kirkjuna 1941, kórdyrabogi og kórþil fjarlægð og prédikunarstóll fluttur í suðausturhorn kórs.

Árin 1953–54 var smíðuð forkirkja við kirkjuna og kór ásamt skrúðhúsi, oddbogalöguð hvelfing var sett yfir framkirkju og kirkjan múrhúðuð að utan. Síðar var múrhúðun brotin af og kirkjan klædd trapisumótuðum stálplötum.[2]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Djúpavogskirkja er timburhús, 7,70 m að lengd og 6,36 m á breidd, með forkirkju, 2,03 m að lengd og 2,18 m á breidd, og kór með bogadregnu kórbaki, 3,90 m að lengd og 3,68 m á breidd. Þak kirkjuskips er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn og á honum hátt íbjúgt píramítaþak. Kirkjan er klædd trapisuformuðum stálplötum, þök bárujárnsklædd og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir smárúðóttir gluggar, einn á hvorri hlið kórs og einn á suðurhlið forkirkju. Lítill gluggi er á framstafni kirkju og smágluggi á hvorri turnhlið. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Kór er  undir minna formi og inn af honum er lítið skrúðhús. Setuloft á bitum og þremur stoðum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi til loftsins í norðvesturhorni. Veggir framkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum en forkirkja og kór sléttum plötum. Yfir framkirkju er oddbogalöguð hvelfing er bogahvelfing yfir kór, báðar klæddar sléttum plötum.[1] ÞÍ. Bps. C, V. 41. Bréf 1895. Byggingarreikningur Djúpavogskirkju.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Djúpavogskirkja.