Höfuðborgarsvæðið - utan Reykjavíkur
  • 0323

Hafnarfjarðarkirkja

Strandgata

Byggingarár: 1914.[1]

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.

Breytingar: Tengibygging reist milli kirkju og safnaðarheimilis 1994.

Hönnuðir: Hans-Olav Andersen og Sigríður Magnúsdóttir arkitektar.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hafnarfjarðarkirkja er steinsteypuhús með framkirkju og kór undir sama þaki og lágum kórstúkum hvorum megin, 25,63 m að lengd og 11,50 m á breidd, krossstúkum á hvorum hliðarvegg 6,88 m að lengd og 2,24 m á breidd og turn við vesturstafn, 1,52 m að lengd og 5,02 m á breidd. Risþak er á kirkju og krossstúkum. Veggir eru múrhúðaðir, þök bárujárnsklædd og á kirkjunni eru bogadregnir gluggar skreyttir steindu gleri. Á turni er hátt píramítaþak sem dregið er niður yfir hliðarveggi turns hvorum megin og sett bogakvisti með úrskífu en tvö ferstrend hljómop undir á turnveggjum. Úrskífur eru og á fram- og bakhliðum turns og þrjú bogadregin hljómop. Tengibygging er við suðurstúku yfir í safnaðarheimili sunnan kirkjunnar. Dyr eru á forkirkju hvorum megin turns og á kórstúkum. Kirkjudyr eru á framhlið turns, inndregnar og fyrir þeim spjaldsettar vængjahurðir og lágbogagluggi yfir. Stór hringgluggi er uppi yfir kirkjudyrum og tveir ferstrendir gluggar en lítill hringgluggi ofarlega á krossstúkustöfnum.

Inn af dyrum er forkirkja yfir þvera kirkju og stigi til sönglofts yfir fremsta hluta framkirkju. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og spjaldsett hurð hvorum megin þeirra, gegnt hliðardyrum forkirkju. Miðgangur er inn af aðaldyrum og hliðargangur með veggjum hvorum megin og þverbekkir á milli þeirra. Kór er undir minna formi og hafinn yfir kirkjugólf um fjögur þrep. Prédikunarstóll með himni yfir er innst í framkirkju sunnan megin og dyr að honum úr skrúðhúsi í kór. Frambrún söngsvala er bogadregin og á þeim handrið með renndum pílárum. Yfir framkirkju er lágboga hvelfing og önnur yfir kór. Veggir og hvelfing eru múrhúðaðar. Kórdyrabogi og veggir krossstúka eru skreyttir máluðum helgimyndum. Um glugga er málaður rósastrengur og undir gluggum skrautbekkur sem leiddur er umhverfis framkirkju og krossstúkur.[1] ÞÍ. Bps. C. V, 85. Bréf 1917. Skilagrein fyrir greiðslum til verksala þjóðkirkjubyggingar Garðasóknar, ásamt fylgiskjölum.

[2] Júlíana Gottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 12. Hafnarfjarðarkirkja, 159-184. Reykjavík 2008.