Höfuðborgarsvæðið - utan Reykjavíkur

Lágafellskirkja

Mosfellsbær

Byggingarár: 1888-1889.Lagafell-19

Hönnuður: Hjörtur Hjartarson forsmiður.[1]

Breytingar: Turn í breyttri mynd smíðaður á kirkjuna 1931. Kirkjan lengd og kór og skrúðhús reist við hana 1955-1956.

Hönnuður: Embætti Húsameistara ríkisins.

Skrúðhús stækkað og kapella reist við kirkjuna 1989.

Hönnuðir: Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson arkitektar.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Lágafellskirkja er timburhús, 14,52 m að lengd og 7,63 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,29 m að lengd og 5,64 m á breidd, og tengibyggingu milli norðurhliðar kórs og skrúðhúss. Þök eru krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með hátt píramítaþak sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar og einn heldur minni á framstafni. Í þeim er krosspóstur og sex rúður í römmum. Tveir litlir gluggar eru á suðurhlið kórs en tveir samlægir oddbogagluggar á þremur hliðum turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi til sönglofts yfir fremsta hluta framkirkju. Að framkirkju eru vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er upp yfir kirkjugólf um þrjú þrep. Bekkir eru hvorum megin gangs. Kórdyrabogi er á mörkum framkirkju og kórs en dyr á norðurhlið hans að tengibyggingu. Veggir eru klæddir ómáluðum panelborðum og yfir framkirkju er plötuklædd hvelfing en reitaskipt hvelfing yfir kór.[1] ÞÍ. Bps. C. V, 83. Bréf 1892. Byggingarreikningur Lágafellskirkju í Mosfellsprestakalli árin 1888-1889 með fylgiskjölum.

[2] Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 12. Lágafellskirkja, 206-218. Reykjavík 2008.