Norðurland vestra

Grafarkirkja

Höfðaströnd

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1939.Grafarkirkja-14.-mai-2009-004

Húsið tekið á fornleifaskrá 5. júní 1948. 

Byggingarsaga Grafarkirkju nær að minnsta kosti aftur á 17. öld. Helgihald lagðist niður í Grafarkirkju um miðja 18. öld og var kirkjan notuð lengi sem skemma, en ætíð kallað bænhús, enda var prédikunarstóllinn ekki tekinn niður. Í kjölfar þess að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skoðaði húsið 1938 eignaðist Þjóðminjasafnið það árið eftir. Þegar húsið var tekið á fornleifaskrá 1948 og hafist handa um viðgerð þess var húsið mjög lasið og kom í ljós að gömlu viðirnir reyndust ónothæfir og allur efniviður hússins því endurnýjaður en sniðnir nákvæmlega eftir þeim gömlu. Það eina sem varðveist hefur af gömlu viðunum eru vindskeiðarnar sem geymdar eru í Þjóðminjasafni. Húsið var endurvígt að lokinni viðgerð 12. júlí 1953.

Kirkjan er með torfveggjum úr streng með fram langhliðum en timburstafnar með slagþili snúa í austur og vestur. Grind kirkjunnar er úr stafverki með miðsyllum og krossreistu sperruþaki með reisifjöl á langböndum. Torf er á þaki, en undir því bárujárn.

 

Heimild:

Guðrún Harðardóttir. 2005. Grafarkirkja. Í Kirkjur Íslands. Friðaðar kirkjur í Skagafjarðarprófastsdæmi, 6. bindi, bls. 63-72. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd ríkisins, Fornleifavernd ríkisins, Birkupsstofa og Byggðasafn Skagfirðinga.