Norðurland vestra
  • 0368

Sjávarborgarkirkja

Skagafirði

Byggingarár: 1853.

Hönnuður: Guðjón Jónsson snikkari.[1]  

Breytingar: Kirkjan flutt úr stað um 1930 og upp á Borgina 1974, sett á steinsteyptan sökkul og snýr framstafn hennar til suðurs.[2]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1972.[3]

Sett á fornleifaskrá 6. október 1972, en lagaheimild skortir sbr. II. og IV. kafla þjóðminjalaga nr. 52/1969.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Sjávarborgarkirkja er timburhús, 8,40 m að lengd og 4,22 m á breidd. Þakið er krossreist og lítill trékross upp af framstafni. Kirkjan er klædd tjörguðu slagþili og rennisúð og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum, fjögurra rúðu gluggi er ofarlega á hvorum stafni og einn í kvisti á austurhlið þaks. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð.

Inn af dyrum er gangur inn kirkju og bekkir hvorum megin hans. Lágt kórþil klætt póstaþili er á mörkum framkirkju og kórs. Í kórdyrum eru kórstafir upp undir þverbita. Prédikunarstóll er framan kórþils austan megin undir kvistglugga. Veggbekkir eru umhverfis í kór að altari. Klukka hangir í ramböldum á klukknastól í fremsta stafgólfi framkirkju. Veggir eru klæddir póstaþili og þverbitar eru yfir framkirkju og kór. Yfir kirkju er loft opið upp í rjáfur, klætt skarsúð á sperrur. Kirkjan er ómáluð að innan.[1] Þórir Stephensen. Kirkjur Íslands 5, Sauðárkrókskirkja, 237. Reykjavík 2005.

[2] Kristmundur Bjarnason. Sauðárkrókskirkja og formæður hennar. Akureyri 1992; Þórir Stephensen. Formæður Sauðárkrókskirkju.Tindastóll 3.-4. tbl. 1960; Kirkjur Íslands 5, Sauðárkrókskirkja, 235-245. Reykjavík 2005.

[3] Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns.

[4] Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskrá 1990, 44.