Norðurland vestra
  • 0179

Vesturhópshólakirkja

Húnaþing vestra

Byggingarár: 18771878.

Hönnuður: Sigurður Helgason forsmiður frá Auðólfsstöðum.[1]

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan timburklædd á veggjum og þaki og ómáluð að innan. Hún var máluð fyrsta sinni utan og innan 1893 en þá hafði þakið verið pappaklætt og það var klætt bárujárni 1911. Veggir voru klæddir steinajárni skömmu fyrir 1937.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Vesturhópshólakirkja er timburhús, 7,69 m að lengd og 4,73 m á breidd, með klukknaport við vesturstafn, 1,40 m að lengd og 1,73 m á breidd. Þakið er krossreist og trékross upp af framstafni. Kirkjan er klædd steinajárni, þak bárujárni og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Lítill póstgluggi er efst á framstafni með tveggja rúðu römmum. Á klukknaporti er krossreist bárujárnsklætt þak en efsti hluti stafns og hliða er klæddur steinajárni. Stoðir eru undir framhornum en hálfstoðir við framstafn kirkju. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir.

Inn af dyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með lágu pílárasettu kórþili. Framan þess sunnan megin er prédikunarstóll. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Veggir eru klæddir standþiljum. Efst á þeim er band með hvelfdum lista að neðan en ávölum að ofan sem leitt er fyrir gafla og umlykur kirkjuna. Yfir henni er borðaklædd hvelfing.[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C V, 160. Bréf 1879. Reikningur yfir kostnað við endurbyggingu Vesturhópshólakirkju 1878 og Reikningur Vesturhópshólakirkju fyrir fardagaárið 1877-1878.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C V, 160. Bréf 1879. Lýsing Vesturhópshólakirkju 1878; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 7. Vesturhópshólakirkja, 266-275. Reykjavík 2006.