Norðurland vestra
  • 0609

Þingeyrakirkja (Þingeyraklausturskirkja)

Sveinsstaðahr., A-Húnavatnssýslu

Byggingarár: 18641877.

Hönnuður: Sverrir Runólfsson steinsmiður.

Breytingar: Í öndverðu var hella á þökum en árið 1959 voru þau klædd eir.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Þingeyrakirkja er steinhlaðið hús, 14,40 m að lengd og 8,23 m á breidd, hornsneitt á kórbaki og með turn við vesturstafn, 2,24 m að lengd og 3,43 m á breidd. Þakið er krossreist og gaflsneitt yfir kór. Veggir eru hlaðnir úr ótilhöggnu eða lítt höggnu steinlímdu grjóti, sökkulbrún er neðarlega á vegg, raðsteinsbogar yfir gluggum, dyrum og hljómopum og brúnir eru undir þakskeggi. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar og einn á hvorri hornsneiðingu. Þeir eru bogadregnir að ofan, gerðir úr steypujárni og í hverjum þeirra eru 100 rúður. Efri hluti turns gengur inn á kirkjuþak sem nemur veggjarþykkt vesturstafns. Á honum er lágreist píramítaþak, eirklætt eins og þak kirkju. Ofarlega á hverri hlið turns er bogadregið hljómop með hlera fyrir en hringgluggi á framhlið uppi yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir og inn af þeim er forkirkja í turninum.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir. Inn af þeim er gangur og þverbekkir hvorum megin hans. Kórgafl er bogadreginn og við hann eru veggbekkir. Prédikunarstóll er framan innstu bekkjaraðar sunnan megin og gegnt honum skírnarfontur og himinn yfir báðum. Söngloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju inn að annarri gluggaröð og stigi við framgaflinn norðan megin. Flatsúlur eru undir bitum við vegg. Loftið er girt handriði með renndum pílárum og milli þeirra eru skorin líknesi af postulunum tólf. Kristslíknesi er uppi á handslánni fyrir miðju og bogi yfir sem situr á stoðum í handriðinu. Dyr eru inn í turninn af loftinu. Veggir eru sléttaðir. Yfir framkirkju er borðaklædd hvelfing en hvol yfir kór prýdd stjörnum.[1] Ásgeir Einarsson. Lýsing Þingeyrakirkju og ræður við vígslu hennar. Reykjavík 1878; Guðrún Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 8, Þingeyrakirkja, 270-285. Reykjavík 2006.