Norðurland vestra
  • 1587

Auðkúlukirkja

Svínavatnshreppur, A-Húnavatnssýslu

Byggingarár: 1894.

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.

Breytingar: Í öndverðu voru þök klædd sléttu járni og kirkjan stóð á steinhlöðnum grunni.

Kirkjan var flutt um set frá vegi á núverandi stað 1971 og sett á steinsteyptan sökkul og þök klædd pappa.

Árið 1994 voru þök klædd eir.

Hönnuður: Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.[1]

Friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 20. desember  1982 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Auðkúlukirkja er timburhús, ílangur áttstrendingur að grunnfleti, langhliðar hvorum megin eru 3,8 m að lengd en hinar hliðarnar sex eru 2,25 m að lengd. Þakið er krossreist upp af hliðarveggjum og gaflsneitt yfir kór og framkirkju. Á miðju þaki er ferstrendur stallur og á honum áttstrent þak upp að áttstrendum opnum turni. Hann er burstsettur, skreyttur laufskurði og á honum er há áttstrend spíra. Neðarlega á kirkjuþaki, upp af hverju horni, eru háar stoðir, ferstrendar neðst en rúnnaðar að ofan, og á þeim hnöttur með krossi og minni súlur með hnetti á burstum turns og spíru. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir vatnsklæðningu, kantskorið kverkband undir þakskeggi og þök eirklædd. Á sex hliðum kirkju er gluggi, hornsneiddur að ofan. Í þeim er T-laga póstur og tveir fjögurra rúðu rammar neðan þverpósts en rammi með afskorin horn að ofan og í honum þrjár þríhyrndar rúður. Kirkjudyr eru á austurgafli og fyrir þeim eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð. Framundan dyrum eru trétröppur með tveimur þrepum.

Inn af kirkjudyrum er gangur og aftursættir skásettir bekkir hvorum megin hans. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Flatt og mjótt loft er meðfram veggjum umhverfis kirkjuna en yfir henni miðri er oddbogalöguð hvelfing en oddbogalagað hálfhvol yfir kór og fremsta hluta framkirkju.[1] Þorsteinn Gunnarsson. Kirkjur Íslands 8. Auðkúlukirkja, 11-27. Reykjavík 2006.