Hvammskirkja í Laxárdal
Laxárdalur
Byggingarár: 1892.
Hönnuðir: Ólafur Briem yngri og Þorlákur Þorláksson forsmiðir.[1]
Breytingar: Í öndverðu var pappaþak á kirkjunni og hún stóð á steinhlöðnum sökkli.
Þakið var járnklætt 1906, turninn var rifinn af kirkjunni um 1935 en smíðaður að nýju 1993 og árið 1960 var steypt utan á sökkla.[2]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Hvammskirkja er timburhús, 7,67 m að lengd og 5,66 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með krossreistu þaki. Kirkjuveggir eru klæddir listaþili en þök bárujárni. Hún stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklinum og er stöguð niður á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar og einn heldur minni á framstafni. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Hljómop með hlera fyrir er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð.
Inn af dyrum er gangur og aftursættir þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór. Yfir fremsta stafgólfi framkirkju er afþiljað loft og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og efst á þeim er ávöl sylla. Yfir innri hluta framkirkju og kór er panelklædd oddbogahvelfing.
[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 174. Byggingarreikningur Hvammskirkju 1894.
[2] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/12, 13, 17 og 18. Hvammur 1893, 1906, 1935, 1937 og 1960; Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hvammskirkja; Unnar Ingvarsson. Kirkjur Íslands 5, Hvammskirkja, 55-62. Reykjavík 2005.