Norðurland vestra
  • 0586

Bæjardyr Reynistað, Skagafirði

Byggingarár: 1766 í gamla torfbænum á Reynistað sem reistur var 1758–1767.

Hönnuðir: Líklega Páll smiður og Brynjólfur gull- og silfursmiður Halldórssynir á Reynistað.

Breytingar: Teknar niður, fluttar til og endurreistar 1938. Teknar niður 1960 og endurreistar inni í steinsteyptu húsi.[1] Teknar niður og fluttar á núverandi stað og endurreistar á árunum 1999-2000.

Í umsjá Þjóðminjasafns Íslands frá 1999.[2]

Friðaðar 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Bæjardyrnar eru torfhús, 7 m að lengd og 7,9 m á breidd að utanmáli. Veggir eru hlaðnir úr torfi og neðsti hluti bakgafls og á húsinu er rismikið torfþak. Stafnar eru klæddir slagþili strikuðu á brúnum og tvöföldum vindskeiðum. Tveir fjögurra rúðu gluggar eru á framstafni og dyr með okahurð. Timburhúsið er reist af stafverki, ein hæð og portbyggt ris í þremur stafgólfum og er 5,2 m að lengd og 3,3 m á breidd að innanmáli. Veggir bæjardyranna eru þiljaðir að innan með strikuðum listuðum standþiljum á milli stafa, yfirsyllu og undirsyllu sem er fyrir miðjum vegg en neðsti hluti veggja er óþiljaður. Milli yfirsyllu og vegglægju á dyralofti eru felldar standþiljur. Yfir bæjardyrum er loft á bitum, strikuðum á hliðum. Innst sunnan megin var fyrrum gengið inn í bæjargöng en norðan megin er afþiljaður stigi upp á loft með drótt í dyrum og hurð fyrir.

Yfir dyraloftinu er rennisúð á langböndum og eru sperrur og vegglægjur strikaðar á brúnum. Húsið er ómálað að innan.[1] Hörður Ágústsson. Bæjardyraport Þóru Björnsdóttur á Reynistað. Minjar og menntir, 228-246. Reykjavík 1976.  

[2] Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns. Bæjardyr á Reynistað; Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Bæjardyr á Reynistað.