Norðurland vestra
  • 0185

Viðvíkurkirkja

Viðvíkursveit

Byggingarár: 1886.

Hönnuður: Þorsteinn Hannesson forsmiður frá Auðólfsstöðum.

Breytingar: Kirkjan lengd og turn smíðaður 1893. Hönnuður: Gísli Jónasson smiður.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Viðvíkurkirkja er timburhús, 10,12 m að lengd og 5,74 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 1,96 m að lengd og 1,98 m á breidd. Risþak er á kirkju klætt bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er miðpóstur og þverrimar utan á rúðum. Einn gluggi er á hvorri hlið turns og einn á framhlið yfir dyrum og í þeim miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Krappar eru undir vatnsbrettum. Stöpull nær upp að mæni kirkju. Á honum er flatt þak og á því lágur ferstrendur turn með háa ferstrenda spíru sem gengur út undan sér neðst. Handrið með renndum pílárum og hornstólpum eru á frambrúnum þaka stöpuls og turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Að framkirkju er spjaldahurð og gangur inn af henni en aftursættir þverbekkir hvorum megin en veggbekkir í kór norðan megin. Fremst í framkirkju norðan megin er söngpallur. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Borðaklædd hvelfing, skreytt gylltum dropum, er yfir kirkju stafna á milli.[1] Júlíana Gottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 6, Viðvíkurkirkja, 258-269. Reykjavík 2005.