Norðurland vestra
  • 1791

Glaumbær, Skagafirði

Byggingarár: 1840–1880.

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1947.

Byggðasafn frá 1952.

Í umsjá Byggðasafns Skagfirðinga frá 1995.[1]

Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Glaumbær er torfhús um 32 m að breidd og 28 m á lengd að utanmáli. Timburstafnar sex húsa snúa í austur fram á bæjarhlað; syðst er smiðja og því næst Syðri-Skemma, Norður-Skemma, Suðurstofa og bæjardyr, Norðurstofa og eldiviðarskemma nyrst. Úr bæjardyrum, sem þiljaðar eru frá suðurstofu með þverþili, er gengið inn í stofurnar tvær, en yfir þeim báðum er loft. Inn af bæjardyrum eru bæjargöng sem tengja saman sjö hús. Fremst að sunnanverðu er Litlabúr og gegnt því hlóðaeldhús, næst eru Langabúr og Norðurbúr og loks Suðurdyr, en á þeim er bakinngangur á suðurstafni, og gegnt þeim að norðanverðu er Gusa og innst er þrískipt baðstofa. Veggir eru hlaðnir úr torfi  og torfþak er á öllum húsunum. Stafnþil frambæjarhúsa og Suðurdyra eru klædd listaþili en hálfþil á baðstofu er klætt reisifjöl. Fyrir dyrum eru okahurðir og yfir þeim eru litlir gluggar með tveimur til sex rúðum en yfir bæjardyrum er hálfhringgluggi. Á stofustöfnum og hálfþili baðstofu eru sex rúðu gluggar með miðpósti, litlir kvistgluggar eru á bæjargöngum, búrum, eldhúsi og Suðurdyrum og tveir fjögurra rúðu kvistgluggar eru á Gusu. Syðst og nyrst á vestursúð baðstofu er sex rúðu kvistgluggar en á milli þeirra eru þrír tveggja rúðu kvistgluggar og einn er nyrst á austursúð.

Veggir smiðju og beggja skemma eru torfhlaðnir og í þeim eru stoðir við veggi, langbönd, þverbitar og kálfasperrur með langböndum og gisinni reisisúð. Eldiviðarskemmu hefur verið breytt í tæknirými og skemman er klædd að innan með krossvið. Milliþil sunnan megin í bæjardyrum er klætt standþiljum en að norðanverðu er lárétt borðaklæðning felld inn á milli stoða og skástífa í grind. Suðurstofa er klædd brjóstþili með reitum að neðan og standþiljum að ofan. Yfir stofunni og bæjardyrum eru gólfborð suðurlofts á bitum. Stigi upp á loftið er við bakgafl suðurstofu og gengið í hann úr bæjargöngum. Suðurloft er klætt standþili og spjaldaþili. Á húsinu eru kálfsperrur, langbönd og reisifjöl. Norðurstofa er klædd spjaldaþili og yfir henni er loft á bitum. Lokrekkja er innst í stofunni og afþiljaður stigi í suðvesturhorni. Norðurstofuloft er portbyggt, veggir klæddir standþili og spjaldaþili og súðin klædd reisifjöl á langböndum og kálfsperrum. Bæjargöng eru torfhlaðin, stoðir eru við veggi og á þeim veggsyllur með þverbitum og á þeim er þakás og raftar yfir út á veggi.[1] Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns. Glaumbær .