Norðurland vestra
  • 0319

Goðdalakirkja

Vesturdalur

Byggingarár: 1904.

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.[1]

Athugasemd: Kirkjan er smíðuð upp úr efni kirkju sem byggð var 1886 en fauk í óveðri 1903. Yfirsmiður  hennar var Árni Jónsson snikkari.

Breytingar: Kirkjan var flutt til 1994 og sett á steinsteyptan sökkul.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Goðdalakirkja er timburhús, 7,64 m að lengd og 5,82 m á breidd, með kór, 2,70 m að lengd og 3,25 m á breidd, og tvískiptan turn við vesturstafn, 1,78 m að lengd og 1,98 m á breidd. Þök eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkjunnar eru tveir gluggar, einn á hvorri hlið kórs og einn heldur minni á framhlið stöpuls. Í þeim er krosspóstur og tíu rúður í römmum en krappar undir efra vatnsbretti. Stöpull nær upp fyrir mæni kirkju og á honum er áttstrent þak og áttstrendur tvískiptur turn yfir. Á neðri hluta turns er rismikið þak upp af efri hluta hans og áttstrend keila yfir. Turnþök eru klædd sléttu járni. Fjögur hljómop með hlera fyrir eru á neðri turnhliðum en laufskurður á öllum hliðum efri hluta. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og þvergluggi með skásettum rimum yfir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Aftursættir bekkir eru hvorum megin gangs. Veggir kirkju eru klæddir strikuðum panelborðum. Efst á þeim er strikuð sylla og önnur í kór. Flatsúlur eru í kórdyrum og strikaður kórdyrabogi yfir. Yfir framkirkju er hvelfing og önnur minni yfir kór, báðar klæddar plötum.[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 175. Bréf 1907. Byggingarreikningur Goðdalakirkju 1904.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 173. Byggingarreikningur Goðdalakirkju 1887; Júlíana Gottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 5, Goðdalakirkja 16–36. Reykjavík 2005.