Norðurland eystra
  • 1631

Róaldsbrakki, Siglufirði

Snorragata 13

Byggingarár: 1906–1907.

Athugasemd: Teiknað og tilsniðið í Noregi.

Hönnuður: Ókunnur en yfirsmiður var Ole Tynes trésmiður.

Breytingar: Húsið flutt um set 1991.[1]

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 26. ágúst 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

 

Róaldsbrakki er portbyggt timburhús með risþaki, 12,05 m að lengd og 15,15 m á breidd. Húsið stendur á steinsteyptum stöplum og tréstaurum og við framhlið hússins er trébryggja. Hliðarveggir og stafnar upp undir glugga á 2. hæð eru klædd listaþili en gaflhlöð klædd plægðri og strikaðri vatnsklæðningu. Þak er bárujárnsklætt og á því hvorum megin er inndregið gluggaskot. Dyr eru á suðurhlið hússins vestarlega og á framstafni eru tvennar stórar vörudyr. Á milli þeirra eru trétröppur að útidyrum á 2. hæð hússins og eru fyrir þeim tvöfaldar vængjahurðir. Fjórir krosspóstagluggar eru á framstafni, fjórir einnar rúðu gluggar og tveir sex rúðu póstgluggar. Efst á gaflhlaðinu er vörugálgi, gluggaop með hlera fyrir og flaggstöng upp af. Tveir sex rúðu póstgluggar eru á bakstafni, tveir einnar rúðu gluggar, bakdyr og að þeim trétröppur. Undir stafngluggum eru samfelld vatnsbretti. Tveir fjögurra rúðu gluggar eru á norðurhlið hússins og einn felldur inn í þak hvorum megin.

Jarðhæð hússins er einn salur og eftir húsinu endilöngu eru tvær stoðaraðir með skástífum. Inn af dyrum á 2. hæð er stór salur en minni herbergi við norðurhlið hússins og gangur að bakdyrum á vesturgafli. Stigi er í miðju húsi norðanverðu. Upp af stiga á 3. hæð er framloft og einnig kames en eldhús sunnan megin gegnt stiga. Við hvorn gafl eru tvö herbergi og tvær súðarkompur. Á framlofti er brattur stigi upp á hanabjálkaloft. Veggir jarðhæðar eru óklæddir að innan og loft borðaklætt neðan á bita. Á annarri hæð eru veggir, súð og loft klædd strikuðum panelborðum en veggir þriðju hæðar eru klæddir sléttum panelborðum, plötum og málningarpappa. Í súðarkompum er þakklæðning á sperrum, í gaflherbergjum eru plötuklædd loft en panelklætt er í eldhúsi. Jarðhæð og hanabjálkaloft eru ómáluð að innan en veggir og loft á 2. og 3. hæð eru máluð nema í súðarkompum.[1] Örlygur Kristfinnsson. Af norskum rótum, 216-218. Mál og menning. Reykjavík 2003; Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Róaldsbrakki.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Róaldsbrakka.