Norðurland eystra
  • 2256

Möðruvallakirkja, Eyjafirði

Eyjafjörður

Byggingarár: 1847.

Hönnuður: Talinn vera Flóvent Sigurðsson forsmiður.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Möðruvallakirkja er timburhús, 11,70 m að lengd og 5,41 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni og á suðurhlið þess er kvistgluggi með fjórum rúðum. Upp af framstafni er lágur ferstrendur stallur skreyttur renndum pílárum og á honum randskorinn trékross. Kirkjan er klædd slagþili og stendur á steinsteyptum sökkli og er stöguð niður á suðurhlið á þremur stöðum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur sexrúðu römmum hver. Tveir gluggar með fjögurra rúðu römmum eru á kórbaki og einn með sexrúðu ramma uppi á stafninum. Á framstafni er gluggi með fjögurra rúðu ramma. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi að ofan. Yfir dyrum er brík studd kröppum og bikar sem tvö blöð sveigjast út frá. Gengt kirkjunni er fornt klukknaport.

Inn af kirkjudyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með þili með renndum pílárum og bogarimum efst. Þverbekkir eru hvorum megin gangs og hefðarbekkir innst með renndum pílárum í baki og stoðum og boga yfir dyrum. Prédikunarstóll er framan kórskila sunnan megin og dyrastafir í kórþili við inngöngu í stólinn. Veggbekkir eru umhverfis í kór að altari. Setuloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgaflinn sunnan megin. Girt er fyrir loftið með renndum pílárum, og rimlaverki og það skreytt súlum og bjór. Veggir eru klæddir stölluðum standþiljum; breiðum undir- og yfirborðum sem felld eru saman. Þverbitar eru yfir kirkjuna en skammbitar efst á milli sperra en loftið er opið upp undir mæni og klætt skarsúð ofan á sperrur. [1] Hjörleifur Stefánsson. Kirkjur Íslands 10. Möðruvallakirkja í Eyjafirði, 247-265. Reykjavík 2007.