Norðurland eystra
  • 0365

Saurbæjarkirkja

Eyjafjörður

Byggingarár: 1858.

Hönnuður: Ólafur Briem forsmiður á Grund.

Breytingar: Steinsteyptur kjallari var gerður undir norðausturhorni kirkjunnar 1959–1960.

Hönnuður: Sigurður Egilsson trésmiður.

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1961.[1]

Tekin á fornleifaskrá 17. apríl 1959 samkvæmt 2. gr. laga um viðhald fornra mannvirkja og um byggðasöfn nr. 8/1947 en ekki þinglýst og friðlýsingin er því ógild sbr. 6. gr. laga um verndun fornmenja nr. 40/1907.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Saurbæjarkirkja er torfhús með timburstöfnum, torfveggjum við langhliðar og torfþekju. Timburhúsið er 9,63 m að lengd og 5,33 m á breidd og torfveggir um 10,8 m að lengd, suðurveggur um 1,70 m á breidd en norðurveggur um 2,20 m á breidd. Neðri hluti þeirra er hlaðinn úr grjóti og streng en efri hluti úr sniddu og klömbruhnaus. Risþak er á kirkjunni lagt torfi og í þekjunni sunnan megin er kvistgluggi með fjórum rúðum. Stafnar kirkjunnar eru klæddir tjörguðu slagþili og á hvorum stafni eru þrír gluggar. Í gluggum á kórbaki er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar og annar gluggi eins uppi á framstafni en hvorum megin dyra er gluggi með sexrúðu ramma. Efst á framstafni er klukknastóll með tveimur klukkum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bjór yfir.

Inn af dyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með háu kórþili. Póstaþil er í neðri hluta þess en randskornar og gegnskornar grindur í efri hluta upp undir þverbita. Prédikunarstóll er framan kórsþils sunnan megin og gluggi í súðinni uppi yfir. Hvorum megin gangs eru þverbekkir og eru innstu bekkir tvísættir en í kór eru veggbekkir umhverfis að altari. Fremst í framkirkju norðan megin er orgel kirkjunnar og veggbekkir umhverfis. Veggir eru klæddir póstaþili. Þverbitar eru yfir allri kirkjunni og loft opið upp í mæni klætt langsúð ofan á sperrur. Kirkjan er ómáluð að innan.[1] Guðrún Harðardóttir. Kirkjur Íslands 10. Saurbæjarkirkja, 286-297. Reykjavík 2007.

[2] Ágúst Ó. Georgsson. Forleifaskrá 1990, 49.