Norðurland eystra
  • 0201

Lögmannshlíðarkirkja

Glæsibæjarhreppur, Eyafirði

Byggingarár: 1860.

Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.

Athugasemd: Innansmíði annaðist að mestu Jón Jónsson Mýrdal forsmiður og rithöfundur.

Breytingar: Forkirkja smíðuð 1886 en forkirkjuturn 1892 og þá var setuloft smíðað í kirkjuna og kvistur á suðurþekju. Í öndverðu var skarsúðarloft á sperrum yfir kirkjunni en1892 var klætt neðan á sperrur og skammbita.[1]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Lögmannshlíðarkirkja er timburhús, 10,10 m að lengd og 5,73 m á breidd, með turn við framstafn, 1,86 m að lengd og 3,22 m á breidd. Þakið er krossreist og kvistur á suðurhlið. Kirkjan er klædd slagþili, þak bárujárni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn ofarlega á kórbaki. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Turninn er breiður neðst en ferstrendur efst og á honum sveigt píramítaþak klætt sléttu járni en veggir eru klæddir yfirfelldu listaþili. Þrír þriggja rúðu hálfgluggar eru á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Í forkirkju er stigi upp á setuloft yfir fremri hluta framkirkju og spjaldsett hurð að framkirkju. Inn af dyrum er gangur, þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór. Prédikunarstóll er innst í framkirkju sunnan megin. Við hann er hluti kórþils sem fyrrum var á mörkum framkirkju og kórs. Fremst í framkirkju norðan megin er orgel og bekkir við veggi. Veggir forkirkju eru ýmist klæddir strikuðum panelborðum eða standþiljum en framkirkja og kór klædd póstaþili. Yfir kirkjunni stafna á milli er borðaklædd súð og skammbitaloft prýdd stjörnum yfir innri hluta framkirkju og kór.[1] Finnur Birgisson. Kirkjur Íslands 10. Lögmannshlíðarkirkja 142-154. Reykjavík 2007.