Norðurland eystra
  • 2257

Laufáskirkja

Grýtubakkahreppur, S-Þingeyjarsýslu

Byggingarár: 1862.

Hönnuður: Tryggvi Gunnarsson forsmiður og síðar bankastjóri.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Laufáskirkja er timburhús, 10,19 m að lengd og 6,15 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með tvískiptu þaki. Turninn er hár og ferstrendur og á hverri hlið er gluggi með sexrúðu ramma og strikuð brík og bogi yfir. Lágreist íbjúgt þak er á turninum upp að lágum og mjóum ferstrendum yfirturni skreyttur renndum pílárum á hliðum. Á honum er íbjúgt lágt píramítaþak  sem há stöng rís upp af. Kirkjan er klædd plægðri borðaklæðningu; breið yfirborð eru felld yfir þynnri og mjórri borð, þak er klætt bárujárni, turnþök sléttu járni og húsið stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju og á kórbaki eru þrír gluggar en einn á framstafni. Í þeim er miðpóstur og tveir rammar með sex rúðum hvor. Hálfsúlur eru við gluggahliðar en yfir þeim strikuð brík og bjór. Fyrir kirkjudyrum eru bogadregnar spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar innri spjaldahurð og um þær hálfsúlur og bogi.

Gangur er inn af dyrum og þverbekkir hvorum megin hans, þeir innstu tvísættir, og veggbekkir umhverfis í kór. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs. Það er klætt spjaldaþili að neðan en renndum pílárum að ofan. Kórstafir og bogi eru í kórdyrum. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin. Setuloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi í norðvesturhorni og því eru bekkir og tvær turnstoðir. Veggir kirkju eru klæddir panelborðum en norðurveggur skoruðum plötum. Hvelfd sylla er efst á veggjum. Reitaskipt stjörnuprýdd hvelfing er yfir kirkju stafna á milli.   


[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 243. Reykjavík 1998.