Norðurland eystra
  • 1785

Hálskirkja

Hálshreppi, S-Þingeyjarsýslu

Byggingarár: 1860

Hönnuður: Tryggvi Gunnarsson forsmiður og síðar bankastjóri.[1] 

Breytingar: Í öndverðu var pappaþak á kirkjunni og veggir tjargaðir. Klukknaport úr timbri var smíðað framan við kirkjuna 1897. Þakið var bárujárnsklætt um 1910 og veggir fyrst málaðir að utan 1924.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hálskirkja er timburhús, 9,53 m að lengd og 5,99 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju og á framstafni er einn gluggi en þrír á kórbaki. Í þeim er miðpóstur og tveir sexrúðu rammar en strikuð brík yfir. Á þakinu sunnan megin er kvistgluggi með fjögurra rúðu ramma. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir. Yfir dyrum er bogadregin strikuð brík. Klukknaport er gegnt kirkjunni í kirkjugarðinum.

Inn af dyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með kórþili. Þverbekkir eru hvorum megin gangs, þeir innstu tvísættir, en veggbekkir umhverfis í kór. Spjaldaþil er í neðri hluta kórþils en renndir pílárar að ofan. Í kórdyrum eru kórstafir í bríkum innstu bekkja og bogi yfir uppi undir þverbita. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin og stóldyr með stoðum og boga í kórþilinu. Setuloft á bitum er yfir fremsta stafgólfi framkirkju og stigi í norðvesturhorni. Veggir eru klæddir standþili. Við glugga eru renndar hálfsúlur og bogi yfir. Yfir framkirkju í fremri hluta kirkjunnar er loft opið upp í mæni og klætt langsúð ofan á sperrur. Reitaskipt hvelfing er yfir kór.[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 243. Reykjavík 1998.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hálskirkja.