Norðurland eystra
  • 0508

Hofsstofa, Hofi í Hörgárdal

Eyjafirði

Byggingarár: 1828.

Hönnuður: Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.[1]

Breytingar: Húsið, sem upphaflega var klætt slagþili á veggjum og rennisúð á þaki, var árið 1936 klætt steinajárni og bárujárni.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Hofsstofa er einlyft timburhús með risþaki, 10,78 m að lengd og 6,53 m á breidd. Á austurhlið þaks er lítill kvistur með tveggja rúðu glugga og reykháfur er á mæni upp af aðaldyrum hússins. Hofsstofa stendur á steinsteyptum múrhúðuðum sökkli. Veggir eru klæddir steinajárni. Dyr eru á austurhlið hússins, sunnan við mitt hús, og bakdyr á vesturhlið norðarlega. Fyrir dyrum eru spjaldahurðir. Á húsinu eru sjö 16 rúðu gluggar með miðpósti; þrír á austurhlið og tveir á suðurstafni og vesturhlið, en á þeirri hlið eru að auki þrír átta rúðu gluggar. Sex rúðu gluggi með miðpósti er á miðri gaflhyrnu sunnan megin á húsinu og að auki einn fjögurra rúðu gluggi og á hyrnunni að norðanverðu tveir gluggar sömu gerðar. Þakið er klætt bárujárni.

Við norðurgafl hússins er einlyft steinsteypt skúrbygging með lágu risþaki. Norður úr henni er steinsteyptur skúr með skúrþaki og portbyggt steinsteypt hús með lágu risþaki við austurhlið hans.

Inn af aðaldyrum á austurhlið er lítil forstofa. Tvennar stofur eru við suðurgafl, fyrir miðri vesturhlið er nýlegt eldhús, salerni og kames, þar sem áður var þriðja stofan. Eldhúsið gamla er fyrir miðri austurhlið og í því er stigi upp á loft. Inn af eldhúsi í norðausturhluta hússins er búr og undir hluta þess er kjallari. Norðurhluti hússins er eitt rými en var áður búr, gangur og kames. Á vesturhlið þess eru bakdyrnar og á norðurgafli miðjum eru dyr blindaðar af skúrviðbyggingu. Upp af stiga er framloft og lítið kames að austanverðu. Inn af því er súðarkompa fram að suðurgafli en annars er stórt herbergi við suðurgafl. Tvö herbergi eru við norðurgafl. Skammbitaloft er yfir rishæð stafna á milli og lúga yfir framlofti. Veggir í stofum eru klæddir spjaldaþili með brjóstlista á miðsyllu. Veggir í nýja eldhúsi, salerni og kamesi eru klæddir spjaldaþili en nýir milliveggir plötuklæddir. Forstofan, gamla eldhúsið og salur í norðurenda eru klædd standþili og standþiljum en hluti norðurgafls er óklæddur. Yfir öllum herbergjum á jarðhæð eru loftin borðaklædd á bita og eru stofubitar strikaðir á brúnum. Veggir rishæðar eru klæddir standþiljum, ýmist listuðum eða sléttfelldum. Kamesveggur á framlofti er klæddur strikuðum panelborðum sem og suðurgafl í súðarkompu en norðurgafl vesturherbergis er óklæddur. Yfir rishæð allri er skarsúð á sperrum og borðaklæðning á skammbitum en súð í  suðurherbergi er klædd standþiljum. Veggir og loft í stofum, nýja eldhúsi, salerni, kamesi og suðurherbergi uppi eru máluð og hluti veggja í forstofu og gamla eldhúsi en annars er húsið ómálað að innan.[1] Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 169. Reykjavík 1998.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Hofsstofa í Hörgárdal.